Fjórir hlutir sem komu í ljós eftir að eiginkona forsætisráðherra sagði frá Wintris Inc.

Auglýsing

Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, upplýsti í vikunni um félagið Wintris Inc. sem heldur utan um fjölskylduarf hennar.

Ýmislegt hefur komið í ljós eftir að hún birti yfirlýsinguna. Hér er það helsta.

 

1. „Ég á erlent félag sem ég nota til að halda utan um fjölskylduarfinn minn. Það heitir Wintris Inc. og er skráð erlendis.“

Það kom svo í ljós að félagið er ekki bara skráð erlendis. Kjarninn greindi frá því að það er skráð til heimils á Bresku Jómfrúareyjunum — Tortóla.

2. „Ef þetta er ekki nóg fyrir einhverja þá er ég líka undir sérstöku eftirliti skv. EES reglum til að tryggja rétt skattskil þar sem gilda sérstaklega strangar reglur um þá sem tengjast stjórnmálamönnum.“

Auglýsing

RÚV greinir frá því að engar EES-reglur séu til um sérstaklega strangt eftirlit með skattskilum þeirra sem tengjast stjórnmálamönnum.

3. „Ég veit að í pólitíkinni og umræðunni í kringum hana er allt gert tortryggilegt og í því andrúmslofti sem er í dag er það mjög auðvelt, ekki síst þegar kemur að fjármálum.“

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í þættinum Vikulokunum á Rás 1 að það sé „formlega rétt“ að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi brotið siðareglur ráðherra með því að upplýsa ekki um félag eiginkonu hans á Tortóla.

Í síðareglum þingmanna, sem samþykktar voru á Alþingi í vikunni, kemur meðal annars fram að þingmenn skuli „við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna og fjárhagslegra hagsmuna þeirra eða annarra hagsmuna sem eru faglegir, persónulegir eða tengdir fjölskyldu þeirra, hvort sem þeir eru raunverulegir eða hugsanlegir.“

4. „Gefum nú Gróu á leiti smá frí.“

Fáir virðast kannast við slúðursögur um félag Önnu en eftir að hún birti yfirlýsingu sína kom í ljós að Reykja­vík Media ehf., fjöl­miðlafyr­ir­tæki Jó­hann­es­ar Kr. Kristjánssonar, vinnur að frétt­um um Wintris Inc. ásamt alþjóðleg­um sam­tök­um rann­sókn­ar­blaðamanna, The In­ternati­onal Consorti­um of In­vestigati­ve Jouna­lists (ICIJ) og þýska dag­blaðinu Sūddeutsche Zeit­ung.

Það á þó eftir að svara einni spurningu.

Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins sagði á Facebook-síðu sinni í vikunni fráleitt að draga fjölskyldur stjórnmálamanna inn í átökin eftir að óskað var eftir því á þingi að forsætisráðherra myndi gera grein fyrir séreign eiginkonu sinnar.

Gott og vel. En ef það er fráleitt, af hverju er Jóhannes Þór, aðstoðarmaður forsætisráðherra, að svara fyrir félag eiginkonu Sigmundar Davíðs í fjölmiðlum?

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram