Þrjár furðulegustu fullyrðingarnar í pistli Rósu Ingólfs um konur og lyftingar

Rósa Ingólfs skrifar pistil á nýja vefinn Kvon.is undir fyrirsögninni „Vilja konur líta út eins og tuddar?“. Pistillinn hefur vakið talsverða athygli en þar birtast ýmsar fullyrðingar sem eiga kannski ekki endilega við í dag. Hér eru allavega þrjár furðulegar fullyrðingar og athugasemdir við.

 

1. „Ósjaldan hefur maður komið að konu grátandi úti í horni, því maðurinn hennar sagði henni að hún væri ekki nógu kvenleg.“

Ha? Hvaða menn eru þetta sem láta svona? Þarf ekki frekar að skrifa pistil um þá?

2. „Konur vilja vera kvenlegar. Þess vegna er óskiljanlegt að konur í dag vilji lyfta lóðum sem nema á annað hundrað kílóum og bæta á sig umfram þyngd sem þær hafa svo ekkert að gera við.“

Það er reyndar mjög skiljanlegt. Að lyfta þungum lóðum er mjög fullnægjandi, sama hvort þú sért karl eða kona. Og „umfram“ þyngdin sem bætist á mann við lyftingar er alls ekki ónothæf — hana má nýta til að lyfta enn þyngri lóðum!

Annars hafa margir líkamsræktar gúrúrar bent á að ótti kvenna við að lyfta þungu er ástæðulaus og beinlínis hvatt þær, eins og karla, til að rífa duglega í lóðin í ræktinni.

3. „Konur mega gæta sín á því að slíta sér ekki út í tilgangslausri líkamsrækt sem miðar að því einu að byggja upp karlmannlega og samanrekna vöðva.“

Það hefur reyndar oft verið bent á að ýmislegt þurfi að koma til svo að konur byggi upp „karlmannlega“ vöðva. Annars mega allir gæta sín á að slíta sér ekki út í tilgangslausri líkamsrækt. Það er allavega best ef líkamsræktin hefur tilgang.

Eiga konur annars ekki bara að gera það sem þær vilja?

 

Auglýsing

læk

Instagram