„Ég er ekki hóra kapítalismans“—MC Bjór o.fl. á Bar Ananas á morgun (Viðtal)

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Á morgun, fimmtudaginn 7. febrúar, blæs plötufyrirtækið Birthday Boy Records til tónleika á skemmtistaðnum Bar Ananas í miðbæ Reykjavíkur. Fram koma listamenn innan raða plötufyrirtækisins, þar á meðal Seppi, Morgunroði, Bróðir BIG, Svarta Solla, Holy Hrafn, að ógleymdum nýjasta meðlimi hópsins—Hauki H. DJ Bricks þeytir skífum fyrir, eftir og á milli atriða. Það er frítt inn og frjálst val hvað klæðaburð varðar. Þá hyggjast þeir Bróðir BIG og MC Bjór einnig frumsýna ný tónlistarmyndbönd um kvöldið—en SKE heyrði í hinum síðarnefnda og spurði hann stuttlega út í tónlistina og lífið. MC Bjór gaf út plötuna Ölæði í samstarfi við hljómsveitina Bland árið 2017. Líkt og fram kemur í viðtalinu dró MC Bjór sig í hlé eftir útgáfu plötunnar en stefnir þó að því að gefa út nýja plötu í ár. Gjörið svo vel.   

Viðtal: RTH
Viðmælandi: MC Bjór

SKE: Já, góðan daginn. Hvað segirðu þá?

Auglýsing

MC Bjór: Þá og þegar, núna eða á eftir, ég er alltaf að rausa einhver orð og segja misgáfulega hluti. En ef ég skil spurninguna rétt þá hef ég það alls ekki slæmt.

SKE: Fyrir þá sem ekki þekkja til MC Bjórs, hver er maðurinn og hver er hann ekki?

MC Bjór: Ég tel mig vera of hlutdrægan til að svara þessari spurningu. Og svo er ég ekki heimspekimenntaður.

SKE: Maður sem titlar sig MC Bjór hlýtur að vera ansi fróður um ölið. Hvaða bjór er í uppáhaldi og kæmi það til greina að taka upp nýja nafnbót í höfuðið á umræddri tegund?

MC Bjór: Það fer mjög mikið eftir dögum hvaða bjór ég held mest upp á. Fer líka eftir því hvaða land við erum að tala um. Belgar eru þó að mínu mati besta bruggþjóðinn. Svo mundi ég aldrei taka upp nafnbót til að auglýsa fyrirtæki eða brugghús. Ég er ekki hóra kapítalismans … nema við séum að tala um mjög stóra upphæð.

SKE: Á morgun, fimmtudaginn 7. febrúar, stígur MC Bjór á svið á Bar Ananas ásamt Bróður BIG, Seppa og fleirum. Hvers vegna varð Ananas fyrir valinu sem tónleikastaður?

MC Bjór: Ég er nú sjálfur ekki að fara að spila. Hljómsveitin mín (Bland) hefur legið í dvala frá því fljótlega eftir að platan okkar Ölæði kom út og fékk með eindæmum dræmar viðtökur. Ananas var valinn því hann er kósý og nálægt, einnig því að starfsfólkið hefur verið einkar almennilegt og liðlegt við mig gegnum tíðina.

SKE: MC Bjór frumsýnir myndband um kvöldið. Hvaða heitir lagið og verður það að finna á væntanlegri skífu?

MC Bjór: Lagið heitir Gerningaveður og er af næstu sólóplötu minni sem ber titilinn Dropar. Útgáfudagur plötunnar liggur ekki fyrir en hún er þó væntanleg á næstu mánuðum. Hún geymir fullt af lögum fyrir svanga rapphausa (og fleiri).

SKE: Gamli skólinn er í fyrirrúmi  í tónlist MC Bjórs. Við hugsum til Madlib, Doom, J5— en tengirðu við einhverja new school rappara?

MC Bjór: Ég skil ekki alveg þetta hugtak new school rappari. Fyrir mér er góður rappari einhver sem er með feitt flæði og góða texta. Og fólk hefur verið með feitt flæði og góða texta frá byrjun og verður það væntanlega þar til yfir líkur líka. Það sama á við lélegt rapp. Ef fólk er að semja áhugaverða texta og rappa um eitthvað annað en læknadóp og hvað þeir eru kúl er ég alltaf til í að hlusta. En ég hef gaman að þónokkrum röppurum sem hafa verið að koma fram á sjónarsviðið upp á síðkastið.

SKE: Á næstu dögum hyggst SKE gefa út fyrsta þáttinn í væntanlegri hlaðvarpsseríu. Sögusvið þáttarins, ef svo mætti að orði komast, eru krossgötur frelsis og rapps, þar sem hugtakið frelsi er skoðað í samhengi rapptónlistar. Hvað þýðir hugtakið frelsi fyrir þér?

MC Bjór: Eins og áður kom fram í viðtalinu er ég ekki heimspekimenntaður og stutt svar í blaðaviðtali við svo viðamikilli spurningu held ég að gagnist engum að svo stöddu. En ef fólk er til í að bjóða mér krús er ég alveg til í að setjast niður og fara ítarlega yfir það hugtak og hvað það þýðir fyrir mig.

SKE: Ertu mikill hlaðvarpsmaður sjálfur (og ef svo er, mælirðu með einhverju góðu)?

MC Bjór: Er hlaðvarp podcast? Ef svo er þá er ég það alls ekki. Ég hef bara hlustað á svona tvo þætti af Harmon Town. En ég er líka einkar tækniheftur og tengi lítið við nýjustu tækni og vísindi. Nema þættina með Sigurði H. Richter. Þeir voru snilld.

SKE: Eitt lag sem allir verða að heyra og hvers vegna?

MC Bjór: Bara eitthvað lag með Bowie—því líf án Bowie væri ekki þess virði að lifa.

SKE: Uppáhalds tilvitnun eða punchlína?

MC Bjór: Fólk hefur sagt svo ótalmargt hnellið, hnyttið, sniðugt, sorglegt, fallegt, nauðsynlegt og skemmtilegt. Svo að reyna að finna eina línu eða tilvitnum úr þeim hafsjó af tilvitnunum og visku væri með öllu ómögulegt.

SKE: Eitthvað að lokum?

MC Bjór: Verum góð við hvort annað, deilum brauðinu, dreifum auðnum og mátturinn til fólksins.

(SKE þakkar MC Bjór kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að láta sjá sig annað kvöld á Bar Ananas. Hér fyrir neðan er svo hlekkur á viðburðinn á Facebook.)

Nánar: https://www.facebook.com/event…

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram