Í gærmorgun fór fram, í Héraðsdómi Reykjavíkur, aðalmeðferð í máli Elds Smára Kristinssonar gegn Ríkisútvarpinu ohf. og fréttamanninum Bergsteini Sigurðssyni.
Málið var tekið fyrir í dómsal 203 þar sem Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari stýrði málsmeðferðinni.
Eldur er stefnandi í málinu og var Skúli Sveinsson lögmaður hans, en Stefán A. Svensson fór með málsvörn fyrir hönd RÚV og Bergsteins.
Forsaga málsins tengist ummælum sem féllu í útvarpsþætti RÚV þar sem rætt var um Eld og samtökin sem hann stýrði á þeim tíma en Nútíminn greindi frá málinu á sínum tíma.
Eldur telur að í ummælunum hafi falist meiðyrði og krefst miskabóta frá ríkisfjölmiðlinum og fréttamanninum.
Ummæli Bergsteins komu í þætti á besta tíma í Ríkissjónvarpinu en þar ræddi Bergsteinn við formann Lýðræðisflokksins, Arnar Þór Jónsson.
Í þættinum, sem sýndur var 26. nóvember 2024, sagði Bergsteinn meðal annars að Eldur hefði verið „fjarlægður af lögreglu úr grunnskóla“ og „sakað þá sem berjast fyrir réttindum transfólks um barnaníð.“
Bergsteinn spurði þá Arnar út í frambjóðanda flokksins, Eld Smára, sem var í oddvitasæti á lista Lýðræðisflokksins í NV-kjördæmi.
Inngangur spurningarinnar var eftirfarandi:
„Tölum einmitt um þjóna og þá sem þið veljið til þjónustu. Oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, Eldur Smári Kristinsson, hann er formaður Samtakanna 22, samtaka sem hafa verið sökuð um að ala á andúð í garð trans fólks, hefur verið fjarlægður af lögreglu úr grunnskóla fyrir að mæta þar í leyfisleysi, og mynda starfsfólk og börn, hann hefur sakað þau sem berjast fyrir réttindum trans fólks um barnaníð, þar á meðal nafngreinda íslenska baráttukonu, hann hefur líka þrástagast um að hún sé karl, farið mjög klúrum og ruddalegum orðum um kynfæri hennar á opinberum vettvangi…“
Taldi á sér brotið
Eldur mótmælti þessum ummælum þegar í stað og krafðist leiðréttingar og afsökunarbeiðni, sem RÚV hafnaði að mestu.
Stofnunin birti þó síðar stutta leiðréttingu á vef sínum þar sem fram kom að lögregla hefði ekki fjarlægt Eld, heldur aðeins fengið málið tilkynnt frá Reykjavíkurborg.
Eldur telur að ummælin hafi brotið gegn lögum um Ríkisútvarpið og skyldum starfsmanna þess, auk þess sem þau hafi skaðað mannorð hans og haft áhrif á framboð hans í kosningunum.
Fyrir rétti viðurkenndu bæði Bergsteinn og Stefán, lögmaður RÚV, að þarna hefði Bergsteinn farið með rangt mál en Bergsteinn sagðist ekki líta á ummælin í heild sinni sem neikvæðan eða jákvæðan inngang að spurningu.
Tók ekki þátt í umræðu um kynfæri
Einnig birti RÚV í leiðréttingu sinni að þáttastjórnendur hlaðvarpsins Gamli skólinn hefðu farið grófast fram í umræðu um kynfæri þekkts einstaklings en lögmaður Elds birti þar að Eldur hefði einungis sagt að hann hefði „engan áhuga á að vita hvað þar væri“ (umorðun blaðamanns).
Réðist á tæknileg atriði málsins
Stefán A. Svensson, lögmaður RÚV hélt því fram að Eldur hefði sagt nóg í átt til þess sem vísað er í, til að Bergsteinn hafi sett fram ummæli sín í góðri trú og sagði fordæmi eru fyrir því að jafnvel ef fréttamaður fer með rangmæli, sé það gert í góðri trú, teljist slíkt ekki ámælisvert.
Búist er við að dómur verði kveðinn upp síðar í mánuðinum.
Mikilvægast að fá æruna hreinsaða
Að loknum réttarhöldum ræddi blaðamaður við Eld Smára Kristinsson, sem sagðist ekki leggja megináherslu á miskabætur heldur á að fá æruna sína hreinsaða.
Hann sagði málið snúast um grundvallaratriði í vinnubrögðum ríkisfjölmiðilsins og rétt einstaklings til að verja mannorð sitt.
Bergsteinn Sigurðsson, fréttamaður RÚV, og lögmaður stofnunarinnar höfnuðu beiðni um viðtal að loknum réttarhöldunum.
Viðtal við Eld Smára eftir réttarhöldin: