Aðeins tvær týpur fá að gera varanlegar breytingar á líkama annarra: Læknar eftir margra ára nám og kolruglaðir flúrarar

„Ég heyrði geðveikan punkt um daginn en þá var einhver gæji að segja að ef þú pælir í því að þá eru bara tvær týpur af einstaklingum sem þú leyfir að gera varanlegar breytingar á líkamanum þínum.Það eru læknar eins og skurðlæknar og tattú-lið. Ef þú pælir í því að þá eru læknar einhverjir sem fóru í margra ára nám og allt rosalega hreint og hvítt,“ segir flúrarinn Dagur Gunnars sem stjórnar þættinum „Blekaðir“ á hlaðvarpsveitunni Brotkast ásamt kollega sínum Ólafi Laufdal.

„Þetta er allt fólk sem er ekki „venjulegt“ – ef þú nennir að lifa lífinu þínu svona og vinna við þetta skiluru að þá ertu svolítið grillaður“

Í nýjasta þætti þeirra félaga berst talið að hinum týpíska flúrara og hvernig þeir geta skorið sig úr hinum almenna hópi vinnandi fólks. Dagur telur að flestir listamenn séu upp til hópa svolítið ruglaðir og því er Ólafur sammála.

Ólafur Laufdal og Dagur Gunnars eru flúrarar af guðs náð og leiða saman hesta sína í frábærum þáttum á Brotkast.

Nánast allir eiga eitt sameiginlegt

„Allir flúrarar sem ég þekki eru kolruglað lið. Þetta er allt fólk sem er ekki „venjulegt“ – ef þú nennir að lifa lífinu þínu svona og vinna við þetta skiluru að þá ertu svolítið grillaður, held ég. Listafólk upp til hópa er svolítið ruglað,“ segir Dagur sem tekur fyrir ákveðna pælingu.

„Mér finnst þetta fyndin pæling. Þú ert búinn að búa þér til 9 til 5 vinnu og þarft að markaðssetja sjálfan þig, bóka sjálfan þig og pæla í allskonar dæmi á meðan þú ert svona „dysfunctional“ einstaklingur. Það að flúrari sé lengi að svara þér…ef hann mætir alltaf og gerir geggjað flúr skiluru.“

„Þetta eru upp til hópa ekkert venjulegasta fólkið eins og þú segir,“ svarar Ólafur sem telur flesta flúrara eiga eitt sameiginlegt.

Fúnkera ekki í venjulegri vinnu

„Ég hugsa að örugglega flestir flúrarar eigi það sameiginlegt að þeir fara út í þetta að hluta til af því einmitt að einhver svona venjuleg vinna gengur ekki upp fyrir þá. Þú ert bara ekki að ná að fúnkera í því umhverfi.“

„Já, sumir eru þannig og ég vissi það alveg frekar fljótt. Ég á mjög erfitt með að mæta bara hérna í vinnuna klukkan þetta og er búinn klukkan þetta. Svo er þetta líka það að ég verð að vera að gera eitthvað skapandi, sama hvað það er,“ segir Dagur í þessum brakandi ferska þætti sem hægt er að horfa á og hlusta með áskrift að hlaðvarpsveitunni Brotkast.

En hverjir eru svona blekaðir?

Blekaðir er glænýr þáttur á hlaðvarpsveitunni Brotkast en hann er í umsjón húðflúraranna Dags Gunnars og Ólafs Laufdals þar sem þeir fara yfir húðflúrssenuna á Íslandi. Þeir eru báðir reyndir húðflúrarar og fá til sín viðmælendur sem hafa einhverja tengingu við hlúðflúr, ýmist húðflúrara eða einstaklinga sem hafa fengið sér húðflúr. Bæði Dagur og Óli starfa við að húðflúra og hafa ótal skemmtilegar sögur að segja sem þeir flétta saman við sögur viðmælenda sinna í þessum skemmtilegu þáttum.

Auglýsing

læk

Instagram