Eldgosaljósmyndir í Listasal Mosfellsbæjar

Ný sýning verður opnuð í Listasal Mosfellsbæjar föstudaginn 18. mars kl. 16-18. Sýningin heitir Volcanoroids og þar verða sýndar ljósmyndir Guðmundar Óla Pálmasonar (einnig þekktur sem Kuggur). Viðfangsefnið er gosið í Fagradalsfjalli en 19. mars verður einmitt komið eitt ár frá upphafi þess.

Guðmundur Óli er lærður ljósmyndari sem hefur haldið fjölmargar sýningar og hafa verk hans birst í allnokkrum erlendum tímaritum. Guðmundur Óli hefur í gegnum árin þróað sína eigin einstöku aðferð í listsköpun sinni. Hann tekur ljósmyndirnar á útrunnar Polaroid flysjufilmur og bætir við ýmsum efnum í framköllunarferlinu. Viðfangsefninu og myndrammanum er þá stýrt af Guðmundi Óla en síðan sleppir hann tökunum með því að láta efnin hafa sín óútreiknanlegu áhrif á filmuna. Við þetta fá myndirnar óraunverulegan, draumkenndan og jafnvel drungalegan blæ.

Þess má geta að degi eftir opnun Volcanoroids verður ný heimildarmynd um eldgosið í Fagradalsfjalli, Fire and Iceland, frumsýnd í Bíó Paradís og þar er m.a. fjallað um ljósmyndir Guðmundar Óla. Síðasti sýningardagur Volcanoroids er 13. apríl.

Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Þverholti 2. Opið er kl. 9-18 virka daga og kl. 12-16 á laugardögum. Aðgangur ókeypis og öll velkomin.

——

Harðsoðna útgáfan:

Ljósmyndasýningin Volcanoroids (volcano + polaroids).

18. mars – 13. apríl í Listasal Mosfellsbæjar

Eldgosið í Fagradalsfjalli (1 árs afmæli).

Tekið á útrunnar Polaroid flysjufilmur.

Auglýsing

læk

Instagram