Fær innblástur frá arfleifð íslenskrar þjóðar

Auglýsing

Hönnuðurinn Anna Silfa sækir innblástur fyrir skartið sem hún hannar í arfleifð Íslands og norræna goðafræði. Hún hefur tekist á við margt í gegnum árin og hefur áorkað miklu á lífsleiðinni, meðal annars að verða Reykjavíkurmeistari í hárskurði herra, flytja inn garn og vera fyrst til að selja snyrtivörur á netinu hérlendis. Hún er á fullu að hanna skart um þessar mundir og nýjasta lína hennar My Pearl er óvenjulegt skart sem er hannað sem prjóna- og vinnuskart.

Anna Silfa er fædd árið 1968 í Reykjavík en hún ólst upp í Bústaðarhvefinu til sex ára aldurs áður en fjölskylda hennar flutti til Mosfellsbæjar, sem var þá ekkert nema sveit og enn bær í uppbyggingu. „Faðir minn, sem var lærður múrari, byggði þar handa fjölskyldunni fallegt hús sem ég síðan ólst upp í,“ segir hún en faðir hennar, Þorsteinn, lést langt fyrir aldur fram í bílslysi á Vesturlandsvegi. „Hann var þá í blóma lífsins og óhætt að segja að það að missa hann hafi fylgt mér síðan þá en með mér lifir þó minningin ljúfsára um þá miklu ást og umhyggju sem hann svo ríkulega gaf mér og yngri bróður mínum.“

„Hjá mér blundaði alltaf sú þrá að sjá skart
hannað inn í nútímann sem jafnframt hefði sterka
og lifandi tengingu við liðna sögu og þá einmitt
skart fyrri alda hérlendis“

Vinirnir kalla hana fagurkera
Anna kláraði grunnskólagöngu sína í Mosfellsbæ og segist hafa eignast þar góða vini sem hún sé enn í samskiptum við „Ég hef síðan í grunnskóla notið að eiga vináttu þeirra áfram inn í lífið og er þakklát fyrir þeirra hlutdeild í minni lífsins göngu.“ Eftir grunnskólann lá svo leið hennar í Iðnskólann þar sem hún lagði stund á hárskera og er gaman að segja frá því að hún varð Reykjavíkurmeistari í hárskurði herra. „Það er miður að sú sérhæfing skuli hafa fallið niður í tímans rás enda hefur mér ætíð þótt vel klipptir og skeggsnyrtir herrar vera ákaflega myndarlegir á velli,“ segir Anna kímin.

Samhliða náminu í Iðnskólanum sótti Anna fróðleik og kennslu í Fjölbrautaskólann í Breiðholti þar sem hún lagði áherslu á textíl og viðskipti. „Og svona af því að mér finnst gaman að öllu grúski þá lærði ég förðun samhliða því enda hefur mér alltaf þótt miklu skipta að konur haldi sér vel til. Það er ekki heldur verra þegar þær fylgja ríkjandi
straumum og stefnum þegar kemur að tískunni enda svo óumræðanlega skemmtilegt að upplifa þær mörgu, og oft byltingarkenndu, sveiflur og breytingar sem endurspegla tíðaranda hverrar stundar. Ég hef svo lengi sem ég man eftir mér alltaf séð hlutina með listrænu auga, og hef ætíð átt gott með að sjá hvað fer fólki vel, bæði í litavali og stíl. Vinir mínir kalla mig fagurkera og tekst yfirleitt vel til með það sem ég tek mér fyrir hendur,“ segir Anna glaðlega.

Auglýsing

Anna á stóra fjölskyldu, fimm börn, eitt barnabarn og annað á leiðinni og því nóg að gera. „Ég er, líkt og margir af minni kynslóð tvígift og eignaðist með mínum fyrrverandi eiginmanni tvær yndislegar dætur sem eru svo sannarlega lifandi demantar minnar tilveru. Þær eru atorkumiklar, ósérhlífnar, einarðar og ákveðnar ungar konur sem eiga framtíðina fyrir sér, vita hvað þær vilja og eru óhræddar við að sækja sína farsæld,“ segir Anna og stoltið leynir sér ekki. Í dag er hún gift Agli Erni Arnarssyni Hansen. „Ég eignaðist svo þrjú önnur falleg og yndisleg börn. Egill Örn, sem ég var svo lánsöm að kynnast og eiga nú í dag sem lífsins förunaut, er yndislegur elskhugi og minn lífsins besti vinur.“

 

Fús til að fylgjast með og elta strauma og stefnur í tískunni
En hvað skyldi hafa tekið við eftir námið? „Eftir allt blessað námið vann ég hjá öðrum í hárskurði og hárgreiðslu,“ segir Anna, „en eins og algengt er með Íslendinga þá átti betur við mig að vinna hjá sjálfri mér. Ég fór því í rekstur í mínu fagi og vann við það allt þar til fyrir nokkrum árum en ég varð að láta af störfum vegna vinnutengds sjúkdóms, sem vefja- og slitgigtin er.“ Anna hefur þó ekki látið það stoppa sig og hefur að eigin sögn í gegnum árin haldið áfram að viðhalda þekkingu, sækja í fróðleik og nýjungar í faginu eftir því sem fagið þróaðist. „Það er meðal annars gaman að segja frá því að ég lærði eiginlega meira um hárgreiðslu kvenna þegar ég dvaldi um tveggja ára skeið á Havaí en í Iðnskólanum sjálfum enda stofur úti mun fljótari að tileinka sér allt það nýjasta en stofur hérna heima á Íslandi. Eins og gefur að skilja þar sem ferðalög á milli landa í þá daga voru hvorki jafn algeng né auðveld eins og í dag. Ég held, sem dæmi, að ég hafi verið fyrst hérlendis til að koma með álstrípur sem meðferð í hárlitun. Ég að minnsta kosti veit ekki betur.“

Meðfram hárgreiðslunni var nóg annað í gangi hjá Önnu. Námið í textíl frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti var farið að setja sinn svip á líf hennar en hún fór meðal annars til Danmerkur að læra Nuno þæfingu á ull og silki. „Textílvinna hefur alltaf átt vel við mig og því var það ekki flókið að leita einnig í verkefni og sjálfstæðan rekstur með vörur og þjónustu því tengdu. Í þessu skyni fór ég m.a. til Danmerkur þar sem ég lærði Nuno þæfingu á ull og silki, skellti mér í hönnun á þeim vörum, setti síðan upp og rak garnbúð á Akranesi. Auk þess var ég ein af þeim fyrstu til að setja slíkar vörur í sölu í stórmörkuðum eins og Hagkaupum og Fjarðarkaupum en í dag þykir það sjálfsagður hlutur að geta gengið að svona sérvöru þar. Hér áður fyrr var það ekki algengt.

Ég hannaði síðan, framleiddi og seldi hérlendis snyrtivörulínuna Secret en hún var, eftir því sem ég best veit, fyrsta snyrtivörulínan sem hægt var að kaupa á netinu sem í dag er örugglega algengasta söluaðferðin.“ Anna segist hafa fengið afar góðar viðtökur við því framtaki og þeirri nýjung. „Til marks um það hlaut ég fyrstu viðurkenninguna sem frumkvöðull sem Mosfellsbær veitti og hefur síðan árlega afhent til þeirra sem bæjarfélagið telur skara fram úr. Verð ég mínum heimabæ ævinlega þakklát fyrir þeirra tiltrú og viðurkenningu,“ segir Anna með stolti í röddinni. Hún segist einnig hafa sótt fjöldan allan af námskeiðum eins og í leðursaumi, blómaskreytingum, prjóni og innanhússskreytingum. „Þegar ég var að þæfa tók ég að mér verkefni að hanna gardínur úr ull og silki og ég hef alltaf elskað þessi náttúruefni.“

 

 

Fær innblástur frá arfleifð íslenskrar þjóðar
Ljóst er að Anna er hokin af reynslu á mörgum sviðum en hvað varð til þess að hún skipti um stefnu og byrjaði að hanna skart? „Ég hef lengi gengið með þann draum að taka aftur upp þráðinn í því að fara í hlutverk hönnuðar og þá í því að vinna með skartgripi. Hjá mér blundaði alltaf sú þrá að sjá skart hannað inn í nútímann sem jafnframt hefði sterka og lifandi tengingu við liðna sögu og þá einmitt skart fyrri alda hérlendis. Ég hef notið þess að eiga góða að sem hafa lagt mér lið og síðan ekki síst verið blessuð með undirtektir margra sem ég hef leitað til í þessari vegferð minni.“

Anna sækir mikið af innblæstri sínum í arfleifð íslenskrar þjóðar með áherslu á skart liðinna alda auk þeirra tengingar við norræna goðaheima sem við þekkjum svo vel til hérlendis. „Það er yndislegt að segja frá því að Þjóðminjasafn Íslands tók vel á móti mér og veitti mér aðgang að munum til að sækja minn innblástur í, þ.m.t. stokkabelti frá 16. öld sem lagði til grunninn að því munstri sem ég síðan útfærði í mínu skarti. Og í þessari línu er síðan að finna hálsmen, eyrnalokka og armbönd sem öll eiga sitt heiti sem eru sótt í nöfn kvenna úr okkar norrænu goðafræði. Allsherjargoðinn hann Hilmar Örn Hilmarsson var svo ljúfur að koma með nafngiftina fyrir hvert og eitt ásamt því að segja í stuttu máli sögu hverrar gyðju.“ Síðan þessi fallega lína kom út hefur Anna þó verið á fullu að hanna og setja fram nýtt skart og má þar m.a. nefna armböndin Bæn og Gersemi. „Innblásturinn að Bæn er sóttur í barnstrúna góðu og þá einlægu von að í öllum sé eitthvað gott að finna og þá fullvissu að þau sem hafa kvatt okkur séu áfram með okkur eins og foreldrar mínir báðir. Þegar ég var að hanna Gersemi þá sótti ég hvatninguna sem fyrr í skart fyrri alda og norrænar hefðir.“

Er forfallinn prjónari og vildi ganga með prjónatækin á sér
Nýjasta hönnun Önnu er lína sem ber nafnið My Pearl en hún segir sjálf að þetta sé óvenjulegt skart sem sé í raun hugsað sem prjóna- og vinnuskart. Öðruvísi og ef til vill svolítið skrítið fyrir suma. „Hérna er skartgripalína sem sækir rætur sínar í mína reynslu og þekkingu sem hannyrðakona enda er ég forfallinn prjónari eins og svo margar góðar konur hérlendis. Og þegar maður prjónar er maður oftar en ekki að týna og leita að málböndum, aukahlutum og fleiru. Þannig að hægt og rólega þróaðist sú hugmynd að gott væri að geta gengið með prjónatækin góðu á sér og vera smart á sama tíma,“ svarar Anna þegar hún er spurð út í það hvaðan hugmyndin að línunni hafi komið.

„Þetta er sem sagt skart á hefðbundna vísu en þó hannað þannig að það nýtist einnig sem vinnutól þegar kemur að prjónaskap þar sem í hálsmeninu er að finna prjónamál sem nýtist til að sjá stærðir prjóna og er mælieiningin bæði fyrir millimetra og fyrir markaðinn í USA. Línan býður upp á að lengt sé í hálsmeninu þannig að hægt er að nota það sem belti en fram-lenginguna er einnig hægt að nota sem armband stakt en í henni er að finna þrjár stærðir fyrir prjóna.

 

Einnig er í sömu línu úrval af ferskvatnsperlum í nokkrum litum og hægt að nota þær bæði sem staka eyrnalokka eða skraut í hálsmeni og eru perlurnar hannaðar sem lykkjumerki. Hvað er nú skemmtilegra þegar prjónað er en að geta prjónað með stæl og ekki spillir að þegar maður fitlar við eyrað á sér þá er hægt að næla sér í lykkjumerki í leiðinni,“ segir Anna og hlær.

„Nýjasti fjölskyldumeðlimur þessarar línu er svo fimm sentimetra langt mælieiningar-hálsmen sem einnig nýtist sem framlenging á keðjuna eða á prjónahálsmenið.“

 

Þessi skemmtilega skartgripalína kemur bæði í gylltum lit, með 18 karata húðun, og svo í hefðbundnum silfurlit en það er há-pólerað læknastál. Öll vörulínan, alveg eins og upphaflega Silfu línan, er ofnæmisprófuð og framleidd þannig að litla umhirðu þarf til að halda skartinu fallegu. Allar upplýsingar um vörurnar hennar Önnu auk upplýsinga um hönnunina og ýmislegt fleira er hægt að kynna sér á heimasíðunni www.silfa.is. En samhliða markaðssetningu og sölu á vefsíðunni er einnig hægt að finna skartið hennar Önnu í sérvöldum verslunum hérlendis. „Ég er svo lánsöm að eiga í dag frábæra samstarfs- og söluaðila hérlendis þar sem einnig er hægt að versla mínar vörur,“ segir Anna. „Það er skemmtilegt að segja frá því að My Pearl línan hefur hlotið athygli út fyrir landssteinana og eru söluaðilar farnir að kynna vöruna bæði í Kanada og Ameríku auk þess sem þekktur prjónahönnuður í Þýskalandi, Melanie Berg, kolféll fyrir vörunni og hefur verið að kynna hana þar. Þannig að framtíðin er björt og fram undan eru spennandi og skemmtilegir tímar,“ segir Anna brosandi.

„Hvað er nú skemmtilegra þegar prjónað er en að geta
prjónað með stæl og ekki spillir að þegar maður fitlar
við eyrað á sér þá er hægt að næla sér í lykkjumerki
í leiðinni.“

Umsjón: Anna Lára Árnadóttir
Myndir: Aðsendar

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram