today-is-a-good-day

Hamraborg Festival

Fimmtudaginn 26.ágúst hefst í fyrsta sinn Hamraborg-festival, listahátíð sem er innblásin af og tileinkuð Hamraborginni. Listahátíðin er með yfir fimmtíu listamönnum, vegglistamenn fá að spreyta sig á veggjum Hamraborgarinnar, tónlist verður spiluð bæði í Salnum og á Catalinu, og annarri hverri búð við götuna mun opna sjálfstæð myndlistarsýning eftir gjörólíka listamenn. Hátíðinni lýkur svo sunnudaginn 29. Ágúst, eftir öflugt lokahóf á Catalinu kvöldið áður.

 

Hátíðin opnar formlega í Midpunkt þann 26. Ágúst kl 16:00. 
Þá fá gestir og gangandi kort í hönd af Hamraborginni og geta gengið á milli sýningastaða og viðburða. Opið verður fram á kvöld og geta listunnendur og aðdáendur Hamraborgarinnar notið sín í botn.
Dagskrá hátíðarinnar heldur svo áfram 27. Ágúst og 28. Ágúst með yfirstandandi sýningum í hinum ýmsu rýmum og margvíslegum viðburðum.

 

Listrænir stjórnendur eru myndlistakonan Joanna Pawlowska, rithöfundurinn Snæbjörn Brynjarsson, grafíski hönnuðurinn Sveinn Snær Kristjánsson, og listakonan Ragnheiður Bjarnarson, en þau reka saman menningarkjarnann Midpunkt sem starfað hefur í Hamraborginni síðan 2018.

 

Hamraborg Festival er hátíð sem er óður til Hamraborgarinnar, aðstandendur hátíðarinnar telja Hamraborgina vera einu sönnu borgina á Íslandi, í það minnsta sé hvergi annars staðar á höfuðborgarsvæðinu hægt að finna jafn ómengað borgarlandslag. Þess vegna er mikill fókus á því að kanna króka og kima hverfisins, þar sem leynast ótal sögur, leikhópurinn Flanerí býður hátíðargestum í göngutúr á föstudaginn, og Hamraborgarskáldið Kamilla Einarsdóttir röltir um borgina með þeim á laugardaginn. Auk þess verður í Midpunkt sýning þriggja listakvenna, þeirra Önnu Andre Winther, Agnesar Ársælsdóttur og Svanhildar Höllu Haraldsdóttur, Óskilamunir, sem snýst um kortlagningu og staðfræði Hamraborgarinnar.
Það má því með sanni segja að þeir sem kíkja í Midpunkt um helgina og þiggja göngutúr muni verða kunnugir staðháttum.

 

Sjálfstæðar myndlistasýningar opna í mjög ólíkum sýningarrýmum, inn á Te og kaffi, í Antíkverslun, í Euromarket, í ljósmyndastofu, í veipbúð, á náttúrufræðistofu og að sjálfsögðu inn á Catalinu. Fyrir utan Midpunkt mun hjarta hátíðarinnar slá á Catalinu, en á föstudagskvöldinu verður leiklestur á völdum atriðum úr verkum Kópavogsskáldsins Tyrfings Tyrfingssonar í flutningi meðlima úr leikfélagi Kópavogs. Á Laugardaginn verður þar svo lokahóf þar Hugrún Britta Kjartansdóttir og Heather Ragnars spila tónlist í upphafi kvölds, og DJ spilar frameftir.

 

Listamenn í Auðbrekku verða með opnar vinnustofur, og á Gerðasafni verða námskeið með listamönnum fyrir börn og fullorðna, og leiðsagnir. Þar að auki munu ungmenni úr Kópavogi sýna verk, bæði kvikmyndir og húllahopp-sýningar.
Auglýsing

læk

Instagram