Huldufólkið fær nýstárlegt útlit

Auglýsing

Nú um helgina var glænýtt íslenskt/breskt sviðsverk frumsýnt á suðurströnd Englands. Leikhópurinn Huldufugl setti sýninguna upp í samstarfi við breska sirkushópinn Hikapee. Verkið kallast á ensku The Hidden People og er samið í sameiningu af hópunum tveimur, en sagan fær innblástur sinn frá íslenskum þjóðsögum um huldufólkið.
Verkið fjallar um byggingu nýrrar virkjunar á Íslandi og samband tveggja systra sem hafa ólíkar skoðanir á framkvæmdinni. Systurnar alast upp á landsbyggðinni, en sú yngri fer utan í verkfræðinám. Þegar hún snýr aftur heim þá er það til að stýra byggingu nýrrar virkjunar í heimahögunum, við dræmar undirtektir frá fjölskyldu og vinum. Undir álagi og stressi fer hún að skynja huldufólk í kringum sig sem endar á að draga hana í hættu.
Sagan er í línulegri frásögn og er sögð gegnum dans, líkamlegt leikhús, loftfimleika og skjávarpanir, en ekkert tal er í verkinu.
„Þetta er mikið samspil ólíkra listforma. Það hefur verið mjög krefjandi og forvitnilegt að setja saman jafn flókinn söguþráð eingöngu í gegnum líkamshreyfingar. Bretar þekkja ekki til huldufólks og hafa ekki sömu tengingu og við Íslendingar höfum við virkjanagerð. Við nútímavæðum huldufólkið en höldum í náttúrutenginguna sem það hefur, en þurfum líka að sýna sterkar tilfinningar á skapandi máta, t.d. þá fer fram rifrildi milli systranna þar sem þær fara í nokkurs konar reipitog – en í loftinu,“ segir Nanna Gunnars, sem fer með hlutverk eldri systurinnar en er einnig meðframleiðandi sýningarinnar.
„Svo gerir skjávörpunin verkið að miklu sjónarspili. Landslagið er á sífelldri hreyfingu gegnum myndrænt efni sem minnir á landslagsmyndir Kjarvals, og leikarar umbreytast í urð og fljót sem aðalpersóna verksins veltist um á. Undir hljómar svo stórkostleg frumsamin tónlist eftir Írisi Thorarins sem styður við frásögnina og framvindu verksins.“
Viðtökurnar voru mjög góðar en verkið var sýnt tvívegis í Worthing Pavilion Theatre síðastliðinn laugardag. Þriðja sýningin fer fram 23. mars og þá í Llanelli í Wales.
„Leikhúsið í Llanelli er glænýtt og stórkostlegt, fullbúið nýjasta tæknibúnaði og tekur yfir 500 manns í sæti. Þar sem það er núna boðið upp á beint flug til Bristol frá Íslandi þá er um að gera að skella sér á íslenska leiksýningu í Wales!“ 
Sýningarferðalag um Evrópu er planað á næsta leikári en þetta er ekki eina verkið í bígerð hjá leikhópnum Huldufugli. Þann 7. apríl næstkomandi frumsýnir hópurinn leikverkið Hliðstætt fólk í Þjóðleikhúsinu en sú sýning fer fram innan sýndarveruleika fyrir 5 áhorfendur í einu.
„Við förum úr 500 manna sýningu í Englandi yfir í 5 manna sýningu heima á Íslandi, en vonandi getum við komið með Huldufólkið heim og sýnt íslenskum áhorfendum það von bráðar,“ bætir Nanna við að lokum.
Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram