Íslenskir fætur fara á Ólympíuleikana

Níu af bestu íþróttamönnum heims, sem notast við gervilimi, hafa dvalið á Íslandi síðustu daga.

Tilgangur heimsóknarinnar var að taka þátt í æfingum og prófunum undir handleiðslu sérfræðinga Össurar nú þegar aðeins tæpt ár er þar til að Ólympíuleikarnir og Ólympíuleikar fatlaðra hefjast í Tókýó. Sem kunnugt er þá hreppti þessi stærsta borg heims og höfuðborg Japan hnossið í vali um að halda sumarleikana 2020.

Hittu forsetann á Bessastöðum
Hópurinn, sem nefnist Team Össur, tók sér pásu frá stífri dagskrá til að sækja forseta Íslands Guðna Th. Jóhannesson heim á Bessastaði. Forsetinn ávarpaði hópinn og gerði að umtalsefni hversu skemmtilegt það væri að hugsa til þess að gervifæturnir sem íþróttafólkið mun styðjast við í keppni í Tókýó hafi allir verið handfjatlaðir af íslenskum listasmiðum, verkfræðingum og hönnuðum í höfuðstöðvum Össurar á Grjóthálsi. Sagði forsetinn Íslendinga vera einstaklega stolta af því hugviti sem þarna búi að baki.

Á íslenskum fótum til Japan
Fljótlega munu þessir íslensku fætur svo ferðast alla leið Japans þar sem eigendur þeirra, sem allir tilheyra Team Össur, vonast til að vinna verðlaun á Ólympíuleikum fatlaðra. Í hópnum eru afreksíþróttamenn frá öllum heimsálfum, heimsmethafar og verðlaunahafar í sínum greinum. Einna þekktastur er líklega Markus Rehm, heimsmethafi í langstökki en met hans er 8.48 metrar. Rehm hefur verið eitt af andlitunum sem skipuleggjendur hafa notað í kynningaskyni fyrir leikanna í Tókýó. Annar meðlimur Team Össur, sem stefnir á að ná sínum besta árangri á leikunum hingað til, er íslenski spjótkastarinn Helgi Sveinsson, núverandi heims-og evrópumethafi í sínum flokki.

Opnunarhátíð Ólympíuleikana í Tókýó verður 24. júlí en Ólympíuleikar fatlaðra hefjast á sama stað þann 25. ágúst.

Þrír nýir háþróaðir hlaupafætur á leiðinni á markað

Þess má geta að á meðal gervifóta sem meðlimir Team Össur hópsins prófuðu í Íslandsheimsókninni eru þrjá nýjar útgáfur af Cheetah-hlaupafætinum. Fæturnir eru enn á þróunarstigi og eru sérstaklega hannaðir fyrir íþróttamenn. Búist er við að þeir komi á almennan markað á næsta ári.

Auglýsing

læk

Instagram