today-is-a-good-day

„Númer eitt var hjá honum að við værum betri en annað fólk“

Um nokkurra ára skeið var ég gift manni sem var frekar sérstakur. Hann vildi móta mig í ákveðið form og fór ekki leynt með það. Honum fannst gaman hvað mamma gat stundum verið óviðeigandi í framkomu við hann. Þetta voru svolítið skrítin ár og kannski vorum við bæði á erfiðum stað í lífinu nákvæmlega þarna og hefðum átt að fara miklu hægar í hlutina.

Frikki var myndarlegur og fullur sjálfstrausts sem hafði komið honum langt. Hann tók mig með trompi þegar ég var tiltölulega nýskilin við barnsföður minn og eiginmann minn til næstum tuttugu ára. Sá skilnaður hafði verið bitur og erfiður. Það var svo sárt að vita hvernig ást okkar hafði breyst í sárindi og fyrirlitningu. Rifrildin urðu sífellt hatrammari og við sögðum hluti hvort við annað sem hefðu betur verið ósagðir, allt í hita leiksins og þótt við meintum þá ekki endilega særðu þeir og eyðilögðu. Friðrik kom eins og frelsandi engill nokkrum mánuðum eftir skilnaðinn, sjálfur tiltölulega nýskilinn, og svo sannfærandi að áður en ég vissi af vorum við farin að búa saman, innan árs harðgift og áttum von á barni.

Yfir aðra hafin

Eitt af því minnisstæðasta sem hann sagði við mig í upphafi var „Oh, hvað ég á eftir að breyta þér.“ Ég tók það samt ekki mjög alvarlega, hann sagði stundum skrítna hluti sem reyndust vera tilraun til gríns en samt alls ekki alltaf. Í þessu tilfelli meinti hann hvert orð og vatt sér nánast strax í að fræða mig, kenna mér hvernig ég ætti að tjá mig, hvað ég ætti að lesa og hvað mér ætti að finnast. Hann var andlega þenkjandi og dró mig svolítið út í heim sem ég hafði ekki kynnst áður, þar sem ríkti einhvers konar sambland af guðstrú og því að trúa á stokka og steina. Númer eitt var samt hjá honum að við værum betri en annað fólk af því að við vorum trúuð á svo „réttan“ máta. Andleg leit og innri vinna voru hans ær og kýr og hann stundaði að fara á fokdýr námskeið. Ég var ekki endilega leiðitöm, ég hafði lúmskt gaman af honum stundum þegar hann var að uppfræða mig, mótmælti ekki en fór mínar leiðir. Ég virti áhuga hans á þessu en hann vantaði alveg virðingu gagnvart mér og mínum skoðunum.

Mér fannst reyndar sumt af þessu andlega dóti nokkuð skemmtilegt, í það minnsta áhugavert, en náði samt aldrei að fara á kaf í neitt af þessu. Ég varð fljótlega ólétt og við giftum okkur nokkru áður en barnið fæddist. Meðgangan var erfið, þegar mér hætti loks að vera endalaust flökurt tók grindargliðnun við. Þetta var algjör martröð og ég var ákveðin í því að ganga ekki með fleiri börn.

Ég sat því heima á meðan Frikki fór á ýmsa fundi og námskeið, fyrir okkur bæði, og fræddi mig við heimkomu. Með tímanum varð ég sífellt fegnari að sleppa við að fara með honum. Það sparaði okkur líka stórfé að bara annað okkar færi. Svo var nóg að gera á stóru heimili, fyrir átti ég tvö börn og svo var sonur hans frá fyrra hjónabandi mikið hjá okkur.

„Hann var andlega þenkjandi og dró mig svolítið út í heim sem ég hafði ekki kynnst áður, þar sem ríkti einhvers konar sambland af guðstrú og því að trúa á stokka og steina. Númer eitt var samt hjá honum að við værum betri en annað fólk …“

Alvörumatur hjá tengdó

Frikki var tólf árum eldri en ég og því nær mömmu í aldri en mér, eða átta árum yngri en hún sem var tvítug þegar ég kom í heiminn. Hún var afskaplega hrifin af nýja tengdasyninum og lét hann óspart heyra hvað hann væri mikill happafengur.

Mamma gat verið hræðileg með víni og fékk sér oft í glas á þessum tíma. „Öl er annar maður,“ er eitthvað sem átti vel við hana því hún gat verið mjög andstyggileg undir áhrifum áfengis en bara út í sín eigin börn, einhverra hluta vegna. Edrú var hún yfirleitt ágæt þótt mér fyndist hún of upptekin af því hvað öðrum fyndist um sig. Aðrir fengu sem sagt sparihliðina á henni.

Á þessum tíma var hún nýlega hætt með kærasta sínum til nokkurra ára sem gæti útskýrt drykkjuna.

Mér fannst mjög fyndið í fyrstu þegar hún fór að daðra við Frikka. Hún hrósaði honum mikið sem hann kunni vel að meta, og svo talaði hún illa um mig ef ég var ekki nálægt og það fannst honum reyndar ekki jafnfyndið. Hún vildi svolítið að þau væru teymi gegn mér, ég upplifði það alla vega þannig.

Það var ógleymanlegt þegar mamma bauð okkur eitt sinn í saltkjöt og baunir, ekki á sprengidaginn. „Þú færð ekki svona mat hjá dóttur minni!“ sagði mamma hróðug og Frikki sleikti út um. Þetta var alveg rétt hjá mömmu, Frikki var með of háan blóðþrýsting og kominn á lyf svo ég hefði aldrei boðið honum upp á svona mat, ég var líka talsvert minna fyrir gamaldags íslenskan mat en hann og mamma.

Ekki hafði Frikki kvartað yfir saltkjötsleysinu við mig svo hann hlaut að hafa klagað í mömmu sem vissi fullvel að þetta var óhollt fyrir hann.

Frikki borðaði með bestu lyst. Mamma var sigri hrósandi fyrir að vera betri við hann en eiginkonan, hann var voða glaður yfir því að eiga svona góða tengdamömmu. Þetta var fáránleg uppákoma og ég upplifði mig sem óvininn. Reyndar fannst mér ekki vera í mínum verkahring að banna fullorðnum manni að borða svona óhollustu, hann vissi sjálfur af hættunni. Við vorum yfirleitt alltaf með hollan mat heima og ég hélt að við værum bæði sátt við það.

„Það var ógleymanlegt þegar mamma bauð okkur eitt sinn í saltkjöt og baunir, og ekki á sprengidaginn. „Þú færð ekki svona mat hjá dóttur minni!“ sagði mamma hróðug og Frikki sleikti út um.“

Þetta er brot úr lífsreynslusögu úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Hægt er að lesa sögunaa í heild sinni á áskriftarvef Birtíngs.

Sjö daga fríáskrift er í boði fyrir nýja áskrifendur.

Auglýsing

læk

Instagram