Ofsótt af fyrrum kærustu eða eiginkonu: „Þá byrjuðu bréfin að koma“

Texti: Steingerður Steinarsdóttir 

Maðurinn minn var nýskilinn við konuna sína og hafði átt í sambandi við aðra konu fram hjá henni þegar við kynntumst. Ég get ekki sagt að mér hafi litist vel á þegar hann sagði mér þetta en kunni að meta hreinskilni hans. Ég ákvað samt að þetta væri ekki fyrir mig. Honum tókst samt að sigra tortryggni mína með blíðu og ákveðni.

Ég sá Magga fyrst í boði á vegum vinnuveitanda míns. Verið var að fagna verklokum og samstarfsaðila okkar var boðið. Maggi vann fyrir þá og mér fannst hann fallegasti maður sem ég hafði séð. Þegar líða tók á kvöldið settist hann við borðið hjá mér og við fórum að tala saman. Mér fannst hann ofboðslega skemmtilegur og við áttum margt sameiginlegt. Þegar hann sagðist vera einhleypur í augnablikinu fannst mér ég hafa himin höndum tekið. Hann bauð mér far heim um nóttina og á leiðinni sagði hann mér að hann hafi átt í sambandi við konu í rúma fjóra mánuði og beðið konu sína um skilnað vegna þess.

Hann hafði talið að hin konan vildi að þau tækju saman og myndi fara frá manninum sínum en þegar til kom hafði hún hætt við. Nokkrum dögum áður en við hittumst hafði hún slitið sambandinu og sagst ætla að reyna að bjarga hjónabandi sínu. Ég var sárhneyksluð á flækjunum í kringum þennan mann og þegar ég þakkaði honum fyrir farið fyrir utan heimili mitt var ég harðákveðin í að tala aldrei við hann aftur.

Boðið út

Tveimur dögum seinna hringdi Maggi hins vegar og bauð mér í mat. Ég hikaði lengi en spurði svo hvort sættir væru í spilunum við annaðhvort kærustuna eða konuna. Hann hló og sagði enga hættu á því. Þetta kvöld var yndislegt. Við komumst að því að við höfðum sama húmor, að minnsta kosti hafði ég ekki hlegið jafnmikið í háa herrans tíð. Maggi byrjaði hvern dag á að synda, rétt eins og ég, úr varð að við fórum að hittast í sundi á morgnana og fá okkur kaffi á eftir. Fljótlega gerði ég mér grein fyrir að ég hlakkaði mikið til þessara stunda og var léttari og glaðari í vinnunni vegna þeirra en ella.

Vinátta okkar þróaðist í nokkrar vikur en við sváfum ekki saman fyrr en við höfðum þekkst í tæpa tvo mánuði. Upp frá því vissum við að við vorum ástfangin og ástarsamband okkar þróaðist hratt. Ég heyrði utan af mér að fyrrverandi kona Magga væri langt frá því ánægð með að hann væri með mér. Samt vissi hún fullvel að ég var ekki sú kona sem hann hafði átt í sambandi við þegar skilnaður þeirra varð. Kannski hafði hún gert sér vonir um að Maggi kæmi til baka og bæðist afsökunar þegar hin konan hætti við að skilja. Hann hafði hins vegar aldrei neinn áhuga á því og var þess fullviss að samband þeirra hefði runnið sitt skeið og ekki væri nein von til að bjarga því.

Eiginkonan fyrrverandi þekkti vel til á vinnustað Magga og hún var ekki sein á sér að bera ýmsar sögur í samstarfsfólk hans. Ég átti til að mynda að hafa gengið lengi á eftir Magga og vera farin að reyna við hann áður en þau skildu. Til allrar lukku vissu þónokkrir af vinum hans nákvæmlega hvenær við kynntumst. Um svipað leyti fór ég líka að verða fyrir ónæði á kvöldin. Stundum var dyrabjöllunni heima hjá mér hringt en þegar ég fór til dyra var þar enginn. Stundum hringdi líka síminn en skellt var á um leið og tólið var tekið upp. Símtölin komu úr ýmsum númerum sem við gátum ekki tengt beint við konu Magga, t.d. var hringt af veitingahúsum niðri í bæ og úr sjoppu í hverfinu mínu.

„Þá byrjuðu bréfin að koma. Þetta voru sakleysisleg umslög, hvít og nafn mitt snyrtilega vélritað utan á. Innihaldið var hins vegar ógeðslegt.“

Önnur bætist í hópinn

Mér fannst þetta hvimleitt en mér datt ekki í hug að láta þetta hafa áhrif á samband okkar Magga. En þá kom sprengjan. Konan sem Maggi hafði haldið fram hjá með hafði hringt í hann og vildi taka upp samband þeirra aftur. Hún sagði að þau hjónin hefðu verið hjá ráðgjafa en sú vinna ekki gengið vel og nú væri fullreynt, hún vildi skilnað frá honum og taka upp samband við Magga aftur. Hann sagði henni hins vegar strax að það kæmi ekki til greina af sinni hálfu. Hann hefði kynnst annarri konu, væri ástfanginn og ákveðinn í að taka saman við hana. Sambandi þeirra væri því að fullu og öllu lokið sama hvort hún héldi sínu hjónabandi gangandi eður ei.

Konan varð foxill og reyndi að fá hann til að skipta um skoðun. Hún hringdi líka og kom í vinnuna til mín. Hún hélt að hún gæti fengið mig til að skipta um skoðun. Við urðum líka vör við að hún keyrði framhjá húsinu heima hjá mér, lagði stundum bílnum og fylgdist með íbúðinni. Nokkrum sinnum hún upp að dyrum og hringdi. Þá heimtaði hún að fá að tala við mig en ég sagðist ekkert hafa við hana að tala og eitt sinn varð ég að hringja á lögreglu og láta fjarlægja hana.

Hún sendi mér sömuleiðis ógeðfellda tölvupósta og skilaboð gegnum Facebook. Ég lokaði á hana þar sem ég gat og fór að eyða póstunum frá henni ólesnum. Þá byrjuðu bréfin að koma. Þetta voru sakleysisleg umslög, hvít og nafn mitt snyrtilega vélritað utan á. Innihaldið var hins vegar ógeðslegt. Stundum voru þetta póstkort með andstyggilegum myndum, klámi, óhugnanlegum teikningum og myndum af afskræmdu fólki. Mér leið til dæmis ekkert vel þegar ég tók upp úr umslagi þrjár myndir af konum sem höfðu orðið fyrir sýruárás.

Stundum voru líka hlutir, skorpin sneið af ávexti í eitt sinn, þurrkaðir sveppir í annað, óhrein viðbjóðsleg ull og eitthvert grátt sull í litlum plastpoka sem ég vissi ekki hvað var. Við Maggi töluðum við lögregluna. Við þóttumst vita að sendandinn væri önnur hvor konan í lífi hans áður en ég kom til en við gátum ekkert sannað. Lögreglan sagðist því ekkert geta gert nema að tala við konurnar.

„Ég er enn fullviss um að þetta er önnur hvor konan sem Maggi var með á undan mér en get ekkert sannað. Mér finnst líka ótrúleg þrautseigja að viðhalda hatrinu og illskunni í öll þessi ár.“
Reynt að eyðileggja hátíðisdaga

Svo kom að því að við Maggi héldum upp í fyrsta sinn upp á afmælið mitt saman. Við ætluðum að elda saman góðan mat, kveikja á kertum og njóta lífsins. Ég kom heim á undan honum með fangið fullt af rósum sem hann hafði sent mér í vinnuna og andabringur í poka. Þegar ég opnaði útidyrnar sá ég að umslag lá á mottunni fyrir innan. Það fyrsta sem mér datt í hug var að Maggi hefði komið þarna fyrir einhverjum ljúfum skilaboðum til mín en þegar ég tók þetta upp sá ég að þetta var ein þessara sendinga. Ég opnaði hana og þá var þar afmæliskort og inni í því einhver ógeðsleg hár. Ég fleygði þessu í ruslið en skuggi hafði færst yfir daginn og þótt kvöldverðurinn væri notalegur og við ánægð leið mér ekki fullkomlega vel.

Þetta var ekki síðasta bréfið sem ég fékk. Nánast allir hátíðisdagar hjá okkur Magga eru markaðir af þessum ófögnuði. Um jól fáum við jólakort með einhverju ógeðslegu inn í, á brúðkaupsdaginn okkar sömuleiðis og á afmælisdaginn minn. Við erum orðin svo tortryggin að við biðjum ættingja og vini að senda okkur ekki kort svo við getum hent þessum umslögum beint í ruslið án þess að opna þau. Ég er enn fullviss um að þetta er önnur hvor konan sem Maggi var með á undan mér en get ekkert sannað. Mér finnst líka ótrúleg þrautseigja að viðhalda hatrinu og illskunni í öll þessi ár.

Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Auglýsing

læk

Instagram