„Svo heyrði ég drunur og þremur sekúndum síðar var flóðið komið“

Alma Sóley Ericsdóttir Wolf, fjórtán ára stúlka sem bjargað var úr snjóflóði sem féll á Flateyri á þriðjudagskvöld, var á leið í háttinn eftir netspjall við vinkonu sína. Örfáum sekúndum seinna var hún föst í snjó.

„Það fyrsta sem ég hugsaði var að ég vildi vita meira hvernig maður á að koma sér úr þessum aðstæðum,“ segir Alma Sóley.

Alma Sóley og móðir hennar, Anna Sigríður Sigurðardóttir, ræddu við Jóhann K. Jóhannsson fréttamann á Ísafirði síðdegis í dag.

„Rúmið mitt er alveg upp við gluggann. Það var eiginlega strax snjór allt um kring. Ég veit ekki hvort ég var á gólfinu eða í rúminu. Það var eins og snjórinn væri steypa og ég væri í móti. Ég gat hreyft mig kannski tvo sentimetra þannig að ég gat alveg andað.“

„Ég var að hugsa um mömmu, systkini mín og kettina mína. Ég hélt að þetta hefði tekið allt húsið. Ég var að hugsa um að anda og bíða eftir einhverjum.“

Hún telur að hún hafi misst meðvitund í einhverjar mínútur.

„Ég held ég hafi verið með meðvitund í svona sjö mínútur. Þá var ég bara að hugsa um að anda og vona að það væri í lagi með þau. Ég bara bjóst við því að einhver myndi koma,“ segir Alma Sóley.

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við þær mæðgur í heild sinni.

Auglýsing

læk

Instagram