today-is-a-good-day

Upprennandi ungra leikara leitað til að talsetja nýjar Tulipop teiknimyndir

Opnar prufur fyrir hlutverk í nýrri íslenskri teiknimynda þáttaröð fara fram á laugardaginn. Öllum krökkum á aldrinum 8-12 ára stendur til boða að mæta þar sem leitað er að upprennandi ungum leikurum til að talsetja hlutverk Búa, Glóar, Fredda og Maddýjar í nýrri Tulipop teiknimyndaþáttaröð sem verður sýnd í Sjónvarpi Símans Premium í byrjun næsta árs.

„Margt býr í Tulipop“ er ein metnaðarfyllsta íslenska teiknimynda þáttaröð fyrir börn sem framleidd hefur verið um árabil. Þáttaröðin byggir á hinum séríslenska ævintýraheimi sem nefnist Tulipop og fjölbreyttu persónunum sem þar búa, en Tulipop heimurinn hefur notið vinsælda meðal barna og fullorðinna á Íslandi.

Í þáttunum fylgjumst við með fimm vinum: Loðna og vinalega Fredda, sveppa systkinunum Búa og Gló, litríku Maddýju og Herra Barra sem er elstur og vitrastur allra á Tulipop. Þau eru öll ólík bæði í útliti og skapgerð. Á Tulipop eru kvenpersónur sterkar og staðalímyndir ekki til. Enginn er fullkominn, allir hafa sína kosti og galla og það sem mestu máli skiptir er kærleikurinn og vináttan. Hver þáttur er fullur af fjöri, óvæntum og fyndnum uppákomum og við fylgjumst með vinunum læra um lífið og tilveruna, hvort annað og síðast en ekki síst eyjuna sjálfa og ótrúlega krafta náttúrunnar.

María Hrund Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Móðurskipsins segir: „Við hvetjum öll börn á aldrinum 8-12 ára til að koma og spreyta sig. Það er ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af leiklist heldur er áhugi og leikgleði í fyrirrúmi.“

Prufurnar fara fram í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýrinni n.k. laugardag frá kl. 11 til 17. Móðurskipið, umboðsskrifstofa leikara, hefur umsjón með prufunum fyrir hönd Tulipop Studios, sem er framleiðandi teiknimynda þáttaraðarinnar. Frekari upplýsingar og skráning fer fram á www.modurskipid.is/tulipop

Auglýsing

læk

Instagram