https://www.xxzza1.com

Viðkvæma listamannssálin: Beið af sér ruglið

Vinkona mín giftist listamanni, ekki lærðum og ekki þekktum, en hann hagaði sér alltaf eins og hann væri einstakur, heimsfrægur, stórkostlegur. Mér fannst hann reyndar afar litríkur og skemmtilegur maður, alltaf lífið og sálin í hverjum hópi. Hins vegar fór lítið fyrir ábyrgðartilfinningu þegar kom að fjármálum og hann náði litlum árangri með list sína en beið alltaf eftir að slá í gegn.

Hann var fjölhæfur á listasviðinu og hefði getað sprungið út sem magnaður listamaður nema hann dreifði kröftunum og reyndi að vera allt í öllu. Hann spilaði rosalega vel á píanó og gítar, var í hljómsveit um tíma, skrifaði feykigóðan texta og hefði með æfingu getað orðið skemmtilegur rithöfundur, hann málaði flottar myndir og var líka algjör snillingur við eldamennskuna … þegar hann nennti. Og þar kom lykilorðið, nennti, ef hann hefði nennt að læra og tileinka sér tæknina í einhverri listgrein eða nokkrum hefði hann ábyggilega getað gert sér mat úr þeim og náð árangri.

Nokkrum árum eftir að giftist vinkonu minni sendi hann frá sér bók. Hún var ekkert slæm en heldur ekkert sérlega góð, hann hafði greinilega tekið sig allt of alvarlega, sett sig í stellingar rithöfundar í stað þess að leyfa meðfæddum hæfileikunum að flæða. Hér og þar var líka byrjendabragur á frásögninni, eðlilega en það hefði vafalaust slípast til ef hann hefði haldið áfram og gert fleiri. Hann fékk umsögn um bókina í blaði. Það var alls ekki alvond gagnrýni og meira segja var sagt að augljóst væri að höfundur gæti gert betur því þarna væru kaflar þar sem sagan næði virkilegu flugi. Eiginmaður vinkonu minnar andmælti henni hins vegar harkalega og gaf í skyn að gagnrýnandinn hefði ekki skilið innihaldið. Ég fór hjá mér og veit að fleiri gerðu það. Maður deilir ekki við dómarann.

„Hann var fjölhæfur á listasviðinu og hefði getað sprungið út sem magnaður listamaður nema hann dreifði kröftunum og reyndi að vera allt í öllu.“

Lítill áhugi á heimilisstörfum

Þegar hann eldaði sinn snilldarmat var eldhúsið í rúst eftir hann en konan hans, vinkona mín, þreif eftir hann, honum fannst það réttlátt fyrst hann eldaði en ekki alveg jafnréttlátt að hann sæi um uppvask og þrif þegar hún eldaði. Þannig var það reyndar um fleiri heimilisstörf, það var alltaf sanngjarnt að þau lentu á einhverjum öðrum en honum. Um leið og börnin fór að stálpast kom hann upp kerfi þar sem þau fengu sín verkefni og skiptu með sér auk þess að sjá um eigin herbergi. Auðvitað er gott að börn taki ábyrgð og vinkonu minni veitti sannarlega ekki af hjálp við að halda heimilinu gangandi. En einhvern veginn var það alltaf svo að ekkert verk lenti á lista eiginmannsins og hann alltaf frír og frjáls að sinna sínum áhugamálum.

Ég man vel eftir matarboði sem hann hélt skömmu eftir hann og vinkona mín fóru að búa saman og ári áður en þau giftu sig, þar sem hann kvartaði hástöfum yfir háu matvöruverði og sagðist hreinlega ekki hafa tímt að kaupa í salat til að hafa með matnum. Við hlógum bara en að láta svona flakka við gestina er auðvitað skortur á kurteisi og engin gestrisni. Mig grunar að vinkona mín hafi talað um þetta við hann því ekkert þessu líkt gerðist aftur og alltaf var salat með matnum í matarboðum.

Vinkona mín er með góða menntun og gegnir starfi sem er ágætlega launað. Listamaðurinn hætti hins vegar í menntaskóla án þess að ljúka prófi og hafði enga framhaldsmenntun. Hann gat hins vegar ekki skitið sig út við einhverja slitvinnu en tók að sér af til margvísleg verkefni tengd spilamennsku og af og til tókst honum að selja mynd eftir sig. Eitt sinn sýndi galleríeigandi áhuga á myndum sem hann var að gera og bauðst til að taka þær í sölu. Hann varð uppnuminn og nú var stóra tækifærið komið. Næstu mánuði talaði hann ekki um annað. Þetta voru fallegar og litríkar myndir og seldust vel. Einn daginn þegar hann kom með nýjar birgðir í galleríiið bað eigandinn hann um að gera þær í ákveðnum litum. Hann benti á að þetta væru tískulitirnir og hann hafði trú á að myndir í þeim litum myndu seljast vel.

Ætlaði ekki að selja sál sína

Listamaðurinn, eiginmaður vinkonu minnar, trompaðist. Hann tók allar myndirnar sínar úr sölu í galleríinu og rauk á dyr. Hann væri sko listamaður og ætlaði ekki að fara gera eitthvað eftir pöntun, selja sál sína, eins og hann orðaði það. Þarna þornaði upp lind sem hugsanlega hefði getað skapað honum einhverjar tekjur til framtíðar. Næsta skref var að opna eigið gallerí og vinnustofu. Hann fékk leigt á góðu verði hjá bæjarfélaginu sem þau bjuggu í en fljótlega varð ljóst að hann seldi ekki nóg til að geta staðið í skilum með leiguna hvað þá að fá einhver laun sjálfur. Hann lokaði vinnustofunni og fór aftur að mála í kjallaranum heima.

Hann tók líka að sér að kenna krökkum fyrstu gripin á gítarinn en flest slík verkefni entust stutt því hann átti til að gleyma sér og vera ekki heima þegar nemendurnir mættu. Eitt sinn réð hann sig sem barþjón á hótel í bænum og sagði okkur fjálglega frá hversu skapandi þetta starf væri og hann væri alltaf að finna upp nýja kokteila. Hann var líka ánægður með vinnutímann, kvöld og helgar, og var alveg viss um að nú hefði hann fundið fjölina sína. En draumastarfiið breyttist í martröð þegar hann komst að því að ætlast væri til að hann mætti alltaf þegar hann átti vaktir og ynni allan tímann sem þær stóðu yfir. Hann var látinn fara eftir örfáa mánuði.

Þau skildu eftir sjö ára hjónaband, þá var vinkona mín farin að átta sig á að hann myndi aldrei breytast og að hæfileikamaðurinn mikli, fjölhæfa stjarnan sem hún féll fyrir í menntó yrði aldrei annað en það, gott efni í eitthvað þegar og ef hann nennti að leggja sig eftir því. Hann ótrúlega frekur við hana eftir að hún bað um skilnað. Vildi fá flest það sem var fémætt í búi þeirra og heimtaði að fá börnin tvö þótt hann hefði mjög lítið skipt sér af þeim, viðkvæm listamannssál hans þoldi illa að vakna til þeirra, skipta á þeim eða þrífa eftir þau. Hann krafðist þess líka að halda íbúðinni fyrst hann tæki börnin, mæður hefðu fengið að halda börnum eftir skilnað hingað til, nú væri komið að feðrunum.

„Um leið og hann var farinn að vera með mun yngri konu sem tók að sér að sjá um viðkvæmu listamannssálina, mátti vinkona mín náðarsamlegast halda börnunum.“

Beið af sér ruglið

Vinkona mín bara beið róleg, sýndi honum þolinmæði og tók lítið mark á látunum í honum. Um leið og hann var farinn að vera með mun yngri konu sem tók að sér að sjá um viðkvæmu listamannssálina, mátti vinkona mín náðarsamlegast halda börnunum. Íbúðin endaði hins vegar hjá honum og þar býr hann enn þótt líklega borgi hann lítið af henni núna þegar unga konan hans er flutt út. Hún gafst upp fyrr en vinkona mín.

Skilnaðurinn fór fram í mestu vinsemd þegar vindurinn var farinn úr honum. Mér mun eflaust alltaf þykja vænt um hann þótt ég sjái gallana og geri mér grein fyrir að þarna vanti töluvert raunsæi. Hann er þrátt fyrir allt mjög skemmtilegur og hjálpsamur á sinn hátt. Er alltaf tilbúinn að gera öðrum greiða ef það er ekki of mikil fyrirhöfn fyrir hann. Við hættum ekkert að vera vinir þrátt fyrir að hann sé skilinn við vinkonu mína og ég fæ alltaf fyrst allra að heyra þegar eitthvað nýtt kemur inn í líf hans og það gerist reglulega, stundum er það ný kona, frábær vinna, viðskiptatækifæri eða að loksins hefur hann verið uppgötvaður sem listamaður. Hann er skrautleg týpa en ég myndi ekki vilja búa með honum eða þurfa að treysta á hann þótt ég fengi háar fjárhæðir borgaðar fyrir það.

Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Auglýsing

læk

Instagram