Sævar er að slitna í sundur og líður vítiskvalir

Sævar Daníel Kolandavelu er 38 ára faðir, tónlistarmaður, lagahöfundur og rithöfundur sem slasaðist alvarlega árið 2016 við æfingar þar sem hann sleit sundur liðband sem heldur saman mjöðm og hrygg (stundum kallað ACL hryggsins).

Í kjölfar meiðslanna hefur Sævar þurft að líða vítiskvalir í að verða sjö ár vegna, að hans sögn, aðgerðaleysis íslenska heilbrigðiskerfisins. Með dyggri hjálp sinna nánustu hefur Sævar leitað allra leiða til að finna lækningu við þeim skelfilegu meiðslum sem hann varð fyrir.

Meiðslin lýsa sér þannig að liðband sem heldur saman spjaldhrygg, neðstu hryggjarliðum og mjaðmagrindinni og festir hrygginn við mjöðm, er slitið. Sævar lýsir því svo að vegna þessa séu þessir líkamshlutar hreinlega að rifna sundur og hryggurinn að losna smám saman frá mjöðminni.

Slitin valda því að hryggur hans togast langt umfram eðlilega hreyfigetu, en slíkt kallast á ensku out of save limits og öll liðbönd í baki hans eru hreinlega að rakna upp.

Þetta ferli veldur svo keðjuverkun og er Sævar í dag með 16 aukaáverka víðsvegar um líkamann vegna þessa. Það þarf að festa saman spjaldhrygginn, neðstu hryggjarliðina og mjaðmagrind saman með skrúfum og gera aðgerð á mjaðmakúlu hans sem er farin að losna úr liðnum.

Þá þarf að laga meðfæddan stoðkerfisgalla á neðri ganglim sem hefur mikil áhrif á líkamsbeitingu og er talin vera ein af orsökum þess að liðbandið slitnaði en stoðkerfisgallinn veldur því að óeðlilegt álag myndast á þetta tiltekna liðband.

Það þarf að saga hann allan í sundur og skrúfa saman aftur eins og Sævar orðar það. Smíða bæði mjöðm og fótlegg upp á nýtt með öllu sem því fylgir.

Einnig þarf hann mögulega í aðgerð á hálsi en til að vel geti farið þarf að byrja aðgerðirnar neðan frá og vinna sig upp á við til að líkur hans á eðlilegu lífi séu sem bestar.

Til þess að þetta takist allt saman segist Sævar þurfa þrjár aðgerðir í það minnsta yfir um fjögurra mánaða tímabil en svo mun taka við langt og erfitt bataferli.

Margir lent í því sama

Sævar stofnaði Facebook hópinn Rétturinn til að Lifa fyrir um ári síðan til að vekja athygli á því afskiptaleysi sem hann hefur upplifað af hálfu íslenska heilbrigðiskerfisins síðan hann slasaðist 2016.

„Í hópnum hefur fjöldi fólks deilt reynslusögum af heilbrigðiskerfinu og er óhætt að segja að þörfin fyrir slíkan vettvang hafi verið mikil“

Mikil samstaða hefur myndast innan hópsins og þar hefur myndast nauðsynlegt stuðningsnet fyrir marga sem sannarlega hafa þurft á því að halda.

Sævar hefur þegar gengist undir tvær aðgerðir þar sem meðal annars þurfti að fjarlægja úr honum rifbein vegna liðamótaskaða sem hann segir að rekja megi til vanrækslu íslenskra lækna sem mögulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

Þrátt fyrir að aðgerðin hafi verið nauðsynleg hefur hún gert hann mjög veikburða.

Sævar hefur þurft að vinna að því sjálfur seinustu ár að fá nákvæma og rétta greiningu á meiðslum sínum og sjálfur þurft að bera sig eftir læknisaðstoð og meðferðum við hæfi.

Sævar hefur þurft að halda utan um flóknar sérfræðiupplýsingar sjálfur

Eftir fjögurra ára baráttu er loksins farið að birta til í máli hans, en Sævar og fjölskylda hans hafa komist í samband við einn fremsta hryggjarskurðlækni heims, hinn tyrkneska Amzi Hamzagolu og undir leiðsögn hans hefur heilt læknateymi unnið hörðum höndum að því að finna lausn við ástandi Sævars.

Þau telja sig komin í mark vísindalega séð en komin er staðfesting á áætlun um meðferð og undirbúningur nú hafinn fyrir þrjár aðgerðir sem Sævar mun þurfa í erlendis. Engin fyrirheit hafa borist um aðkomu ríkisins að málum Sævars og segir hann að ekki hafi náðst í sérfræðinga Landsspítalans í fjóra mánuði þrátt fyrir að öllum sem komið hafa að málinu sé ljóst að hann þarf að gangast undir aðgerðirnar á allra næstu vikum ef vel á að fara.

Sævar segir að málið sé búið að vera langt, erfitt og flókið og hann sé nálægt því að bugast algerlega enda sé hann illa slasaður og hefur sjálfur þurft að afla sér þekkingar og safna gögnum til að gera ferlið mögulegt.

Doktor Azmi Hamzaoglu ætlar að aðstoða Sævar að ná aftur heilsu.

Líðan hans er komin á það stig að um hálfgert neyðarástand er að ræða en seinustu fjögur ár hefur Sævar sjálfur þurft að halda utan um öll gögn um meðferð sína til að ekki þurfi að byrja alla greiningu og meðferðir upp á nýtt þegar nýr aðili kemur að málinu en málsgögnin eru nú um 80 blaðsíður af ítarlegum upplýsingum sem hann sjálfur hefur þurft að læra að skjalfesta.

Hann hefur sjálfur þurft að leggja út fyrir öllum lækniskostnaði sem og ferðakostnaði því Sævar og fjölskylda hafa þurft að fara víðsvegar um heiminn til að fá hjálp með hans mál, en ástandið er svo sjaldgæft að læknasamfélagið virðist vera að læra um það jafnóðum.

Eins og áður segir þarf Sævar að gangast undir aðgerðirnar á næstu vikum til að koma í veg fyrir enn frekari skaða sem gæti mögulega leitt til varanlegrar lömunar.

Nú þegar greining á ástandi hans er talin vera í höfn hafa skurðlæknirinn Amzi Hamzagolu og teymi hans hafið undirbúning fyrir næsta skref í ferlinu.

Vantar herslumuninn.

Enn vantar sjö milljónir upp á til að greiða fyrir kostnaðinn sem fylgir ferlinu en Sævar og fjölskylda hafa þegar lagt út mun meira en þá upphæð til að halda honum á lífi.

Ferlið hefur verið langt og strangt fyrir Sævar sem hefur þurft að setja allt annað til hliðar til þess að halda lífi en nú eru málin komin á það stig að hann þarf nauðsynlega á aðstoð á lokametrunum nú þegar marklínan virðist loksins í augsýn.

Til að standa undir kostnaði hefur fjölskylda Sævars stofnað merkið Thugmonk sem er haldið úti af góðgerðarfyrirtæki sem selur vörur af ýmsu tagi sem Sævar og fjölskylda hafa notið góðs af á þrautagöngu hans.

„Á styrktarsíðu Sævars á Karolinafund er boðið upp á allskyns varning gegn því að styrkja Sævar til meðferðarinnar“

Sævar hyggst nýta reynslu sína til að aðstoða aðra í svipaðri stöðu og hann sjálfur þegar hann nær bata en hann hefur sjálfur átt stóran þátt í að leysa sitt eigið læknisfræðilega vandamál sem sumir fremstu sérfræðingar heims stóðu á gati yfir.

Hann hyggst nýta þessa reynslu til þess að hvetja lækna og sérfræðinga til að starfa betur saman til að hlífa öðrum við því að þurfa að ganga í gegnum það sama og hann sjálfur hefur þurft að gera.

Þitt framlag hjálpar því ekki einungis Sævari í hans baráttu heldur einnig þeim sem á eftir koma og þurfa á svipaðri aðstoð að halda í framtíðinni.

Dæmi um það sem í boði er á styrktarsíðunni

Nú þegar hefur myndast tengslanet milli aðila sem ekki var til áður og mun það auðvelda samvinnu við erfið tilfelli eins og Sævars í framtíðinni. Þrautaganga Sævars er þess vegna strax byrjuð að skila sér í betri heimi og aðstæðum fyrir aðra sem fylgja í kjölfarið.

Þessi þrekraun hefur kennt Sævari að taka engu í lífinu sem sjálfsögðum hlut og gefið honum viljann til þess að hjálpa öðrum í sömu sporum og ef þú vilt leggja þitt af mörkum getur þú smellt hér til að fara inn á Karolinafund síðu Sævars.

Auglýsing

læk

Instagram