Framkvæmdastjóri Bónus um notkun korta í undirheimum: „Okkur þykir það afar leitt“

„Okkur þykir það afar leitt að einhver hluti af okkar kortum séu notuð í þessum tilgangi en það eru fleiri þúsund Bónus gjafa- og inneignarkort í umferð,“ segir Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus í samtali við Nútímann.

Líkt og Nútíminn greindi frá í morgun þá hafa hin gulu Bónuskort reynst vel þegar það kemur að nafnlausum matargjöfum á samfélagsmiðlum á borð við Facebook. En þessi nafnlausa fjáröflunarleið, oftar en ekki fyrir þá sem minna mega sín, er nú notuð í æ meiri mæli í vafasömum tilgangi og eru kortin notuð sem gjaldmiðill fyrir fíkniefni í undirheimum landsins.

Fíkniefnasali sem Nútíminn ræddi við sagði þetta um kortin:

„Ég er að taka við þessum kortum á hálfvirði. Ef þú ert með Bónus-kort með tuttugu þúsund króna inneign að þá færðu hjá mér efni fyrir tíu þúsund krónur. Þetta er mjög vinsælt en getur verið óþolandi.“

En af hverju fær viðkomandi ekki efni fyrir tuttugu þúsund?

„Því ég nenni yfirleitt ekki að standa í þessum kortum. Það er alveg meira en að segja það að vera með fimmtán, tuttugu svona kort og þurfa svo að standa í því að nota þau í mismunandi Bónus-verslunum. Maður verður að gera það til þess að fela slóðina. Það er ekkert hægt að mæta með tíu Bónuskort og kaupa í matinn fyrir hundrað þúsund. Það gengur ekkert.“

Fréttin hefur vakið gríðarlega athygli og ljóst að fjölmargir hafa annað hvort styrkt einhvern á Facebook með því að leggja inn á Bónuskort eða séð auglýsingu frá einhverjum nafnlausum þar sem óskað er eftir því að lagt sé inn á kort viðkomandi.

„Því miður er lítið sem við getum gert til að koma í veg fyrir svona notkun þar sem þetta eru handhafakort og virka sem reiðufé,“ segir Björgvin.

Nútíminn birtir leiðarvísir fyrir þá sem vilja rétta samborgurum sínum hjálparhönd en hægt er að lesa hann með því að smella hér. Fimm atriði sem gott er að hafa í huga áður en fjármunir eru lagðir inn á svona fyrirframgreidd kort.

Auglýsing

læk

Instagram