Auglýsing

Gat samið við hættulegustu glæpamenn Íslands um skuldir en ekki skattinn

Andri Már Ágústsson var gestur í þættinum Götustrákar og ræddi um fortíð sína sem fíkill og hvernig hann náði loks bata.

Andri segir frá því að þegar hann fór í meðferð þá hafi hans helstu áhyggjur verið þær skuldir sem hann hafði komið sér í á neyslutímanum en Andri segir þær hafa verið um 24 milljónir.

Andri lýsir því að hann hafi róast þegar meðferðarfulltrúinn hans hafi sagt honum að einbeita sér fyrst að bata og þegar hann fengi dagsleyfi eftir einhverjar vikur þá gæti hann haft samband við lánadrottna sína og samið við þá.

Andri hlær þegar hann segir tilhugsunina hafa verið vægast sagt erfiða og að sumir sem hann skuldaði hafi verið nokkrir af hættulegustu glæpamönnum Íslands. Hann var hins vegar með áætlun sem hann ætlaði sér að fara eftir og sagði lánadrottnum sínum það einfaldlega þegar hann hafði samband við þá.

Hann segist hissa á þeim skilning sem hann hafi mætt í undirheimunum og að eftir meðferðina hafi hann fengið ótal tækifæri til að vinna skuldirnar af sér á ýmsan hátt og meðal annars sá hann um að þvo bíla fyrir mæður þeirra sem hann skuldaði.

Andri segir einnig frá því á gamansaman hátt þegar hann spilaði fótbolta í fjórðu deildinni og einn sem hann skuldaði um milljón hafi boðið honum að fella niður skuldina ef hann skipti um lið, sem Andri gerði. Hann segist líklega vera dýrasti leikmaður í sögu fjórðu deildarinnar frá upphafi vegna þessa.

Með þrautseigju og dugnaði hafi hann náð að hreinsa af sér allar skuldir ásamt því að sinna föðurhlutverkinu sífellt meira og oft hafi lífið verið erfitt þegar hann átti aldrei pening og sífellt vinnandi en árangurinn heldur betur þess virði.

Sá eini sem Andri gat hins vegar ekki samið við, að eigin sögn, var skatturinn. Andri segir að allir hættulegustu glæpamenn Íslands hafi verið tilbúnir að semja við sig svo hann gæti komið undir sig fótunum aftur, en ekki skatturinn.

Þar hafi hann alltaf komið að lokuðum dyrum og á endanum þurft að lýsa sig gjaldþrota til að losna við þann part af skuldum sínum, sem hann segir að hann hefði löngu verið búinn að borga upp í topp ef skatturinn hefði verið tilbúinn að semja við hann.

Andri starfar í dag með fólki sem er í svipuðum sporum og hann sjálfur þegar hann var á sínum lægsta punkti og hefur tileinkað líf sitt því að hjálpa þeim sem eru að reyna að komast úr klóm fíkninnar.

Brot úr viðtalinu má sjá hér fyrir neðan en til að horfa á á allt viðtalið getur þú tryggt þér áskrift að streymisveitunni Brotkast.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing