Hægir á landrisi: Kvikan flæðir beint út um gosopin

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram og nú eru tveir gígar virkir. Það slokknaði í þriðja gígnum um páskana, en hann var mun minni en hinir tveir. Gosórói er áfram stöðugur.

Landris í Svartsengi hefur ekki mælst síðustu daga sem bendir einkum til þess að kvikan safnist síður fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi en flæði frekar beint út um gosopin. Mögulega er komið á jafnvægi í aðstreymi kviku inn undir Svartsengi og upp úr gígunum, en jarðefnafræðimælingar gætu staðfest það á næstunni.

Sérfræðingar Landmælinga Íslands hafa unnið úr gervitunglagögnum frá 27. mars sem sýna að hraunbreiðan var þá 5,99 km2 og rúmmál hrauns frá upphafi gossins 25,7 ± 1,9 mill. m3. Meðalflæði hrauns frá gígunum á tímabilinu 20. – 27. mars var metið 7,8 ± 0.7 m3/s en það er mjög sambærilegt við hraunflæðið í fyrsta fasa eldgossins í Geldingadölum 2021. Stefnt er að því að taka loftmyndir af svæðinu á næstu dögum til að fá uppfærðar tölur um hraunflæði frá 27. mars sem myndu varpa skýrara ljósi á virkni gossins. Meðfylgjandi kort sýnir útbreiðslu hraunsins og þykkt þess eins og það var 27. mars.

Hættumat óbreytt

Hættumat hefur verið uppfært og gildir þangað til 9. apríl, að öllu óbreyttu. Engar breytingar eru á hættumatinu og áfram er hætta af völdum gasmengunar metin mikil á öllum svæðum nema Sundhnúksgígaröðinni (svæði 3) þar sem hún er metin mjög mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) og svæði 6 eru áfram metin mikil vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar.

Auglýsing

læk

Instagram