Auglýsing

Reyndustu fjölmiðlamenn landsins með skiptar skoðanir á kosningaumfjöllun RÚV

Í hópnum Fjölmiðlanördar á Facebook vekur blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson máls á því að bæði almenningur og frambjóðendur virðast á villigötum þegar kemur að hlutverki fjölmiðla í landinu en tilefnið virðist vera sú umdeilda ákvörðun RÚV að skipta frambjóðendum upp í tvo hópa í kappviðræðunum daginn fyrir kosningar.

Í þessu tilfelli segir Jakob að svo virðist sem nýlega hafi þróast sú hugmynd hjá frambjóðendum að þeir eigi að stjórna allri umfjöllun um þá sjálfa í kosningabaráttunni og vilji sem minnst vita af ritstjórnarvaldi fjölmiðla.

Jakob segir einnig að ekki sé rétt að gera eigi sömu kröfur til RÚV og annarra fjölmiðla og segir að þeir frambjóðendur sem mættir voru í seinni hálfleik kappræðna RÚV hafi mætt reiðir til leiks.  Reiðastur allra hafi þó verið Ástþór Magnússon en Jakob gagnrýnir hann meðal annars fyrir að telja sig í fullum rétti til að svara einhverju allt öðru en þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hann.

Skiptar skoðanir eru um það fyrirkomulag sem RÚV lagði upp með en Gunnar Smári Egilsson segir það hafa verið vonda ákvörðun að hafa umfjöllunina með þessum hætti og heldur því fram að þátturinn hefði orðið bærilegur ef hin sex hefðu fengið að vera með en ekki bara þau allra efstu.
„Ekki til að flytja eigið erindi heldur til að beina málum að þeim efstu, sem þau voru miklu hæfari til að gera en spyrlarnir (sem voru að vana RÚV, mis-ákveðin gagnvart frambjóðendum eftir einhverjum virðingarstiga sem hangir líklega uppi á kaffistofunni í Efstaleiti),“ segir Gunnar Smári.

Konráð Ragnar Konráðsson kemur með þá skoðun að ekki sé rétt að RÚV láti skoðanakannanir ráða hversu mikinn aðgang réttmæt framboð fái að RÚV heldur ættu allir að fá jafnan aðgang að sjónvarpi allra landsmanna þó svo að einkareknir fjölmiðlar ættu rétt á að ráða sjálfir sínum skilyrðum fyrir þátttöku í kappræðum.

Undir þetta tekur Gunnar Smári og gefur í skyn að enginn fjölmiðill hafi dregið úr viðtölum við ráðherra þó ríkisstjórnin mælist með litlar vinsældir í skoðanakönnunum.

Bergljót Davíðsdóttir segir að RÚV eigi að skammast sín fyrir að skipta frambjóðendum upp í „efri og neðri deild“ vegna skoðanakannana og að slíkt sé vanvirðing við þá sem séu í neðri helmingnum.

Hjörtur Smárason segir hins vegar að hárrétt hafi verið að skipta frambjóðendum niður með þessum hætti enda hafi verið málefnaleg umræðu hjá efstu sex en skrílslæti og upphrópanir hjá hinum hópnum.

Einn aðili spyr svo hvernig hópnum finnist að ætti að taka á hegðun eða framkomu eins og þeirri sem Ástþór (Magnússon) sýndi af sér í kappræðunum, en framkoma hans þykir mjög umdeild.

Elsa Þorbjörg Árnadóttir segir aftur á móti að hún sé sammála Ástþóri þegar hann sagði að þetta væru ekki alvöru kappræður þar sem ekki allir frambjóðendur gátu skipst á skoðunum hver við annan.

Mummi Týr segir svo að lokum að RÚV ætti að sjá sóma sinn í að bjóða öllum frambjóðendum að sama borðinu, sama hvað einkareknir fjölmiðlar kunni að gera.

Það er því ljós að jafnvel sumt af reyndasta fjölmiðlafólki landsins er ekki sammála hvernig til tókst hjá RÚV og því varla nema von að almenningur sé það.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing