Ríkisútvarpið og fréttamaður þess, Bergsteinn Sigurðsson, voru í dag sýknaðir af öllum kröfum í meiðyrðamáli sem Eldur Smári Kristinsson höfðaði á hendur þeim vegna ummæla í þættinum Forystusætið á RÚV í aðdraganda alþingiskosninganna 2024 en Nútíminn flutti frétt frá réttarhöldunum.
Hvorki Eldur né lögmaður hans mættu við uppkvaðningu dóms í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Deilur vegna ummæla í sjónvarpsþætti
Forsaga málsins er sú að Bergsteinn ræddi í þættinum við Arnar Þór Jónsson, formann Lýðræðisflokksins, um Eld Smára sem þá var oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi.
Í umfjölluninni vísaði Bergsteinn til þess að Eldur hefði verið fjarlægður af lögreglu úr grunnskóla eftir að hafa mætt þar í óleyfi og tekið upp myndir af starfsfólki og börnum.
Eldur taldi þessi ummæli röng, villandi og meiðandi og fór fram á miskabætur úr hendi RÚV.
Hann hélt því fram að hann hefði ekki verið fjarlægður af lögreglu heldur hefði skólinn tilkynnt atvikið til Reykjavíkurborgar, sem í kjölfarið hefði kvartað til lögreglu.
Þess ber að geta að RÚV gekkst við þessum mistökum.
Dómurinn: RÚV fór ekki yfir mörkin
Héraðsdómur taldi ekki sýnt fram á að RÚV eða fréttamaðurinn hefðu brotið gegn lögum eða valdið Eldi miska.
Niðurstaða dómsins var að sýkna RÚV og Bergstein af kröfum Elds Smára og var honum gert að greiða um eina milljón króna í málskostnað.
Eldur gagnrýnir RÚV og íhugar áfrýjun
Í ítarlegri yfirlýsingu sem Eldur Smári birti á samfélagsmiðlum segir hann að dómurinn sé mikil vonbrigði og að hann telji að RÚV hafi farið með rangt mál.
Hann segir að í þættinum hafi verið gefið í skyn að hann hefði gerst sekur um háttsemi sem gæti varðað við lög, án þess að honum væri gefinn kostur á að svara.
„Í ummælum Ríkisútvarpsins var ég ásakaður um háttsemi sem gæti varðað við lög, og mér var gert upp að mynda börn og starfsfólk á skólalóð,“ segir Eldur í yfirlýsingunni.
Hann bendir á að ummælin hafi fallið í miðri kosningabaráttu og á vettvangi sem „nýtur sérstakrar trúverðugleika og trausts almennings“.
Eldur gagnrýnir jafnframt RÚV fyrir að hafa aldrei leitað eftir hans sjónarmiði eða viðbrögðum, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af hans hálfu.
„Ríkisútvarpið hefur að mínu mati stórlega vanrækt skyldur sínar er kemur að því að fjalla hlutlægt um álitamál sem deilur eru um í samfélaginu. Það er bein ógn við lýðræðið,“ segir hann.
Að lokum segir Eldur að hann muni nú ráðfæra sig við lögfræðinga og aðstandendur áður en hann taki ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað til Landsréttar.
Líkamstjáning dómarans augljós
Blaðamaður Nútímans var viðstaddur réttarhöldin og komst ekki hjá öðru en að taka sérstaklega eftir líkamstjáningu dómara málsins, sem var Ingibjörg Þorsteinsdóttir, en henni gekk vægast sagt illa að leyna líkamstjáningu sinni.
Dómarinn kinkaði kolli til samþykkis flestu sem lögmaður RÚV hafði fram að færa en virtist áhugalítil þegar lögmaður Elds flutti sitt mál og þurfti meðal annars tvisvar að spyrja hvar lögmaður væri staddur í dómsskjölunum, í eitt skipti því hún hafði „sónað út“ en í hitt skipti án skýringa.
Hún tók sér þó tíma til að rífast við lögmann Elds Smára um hvort hann hefði notað orðið „þrástaglast“ viljandi þegar rétta orðið hafði verið „þrástagast“ og fóru þó nokkrar mínútur í þá umræðu.
Blaðamður virðist ekki hafa verið einn um að hafa tekið eftir þessu því annar aðili sem var viðstaddur hafði þetta að segja undir færslu Elds:
„Að sitja í réttinum, hlusta og fylgjast með svipbrigðum hennar gaf vísbendingu um niðurstöðuna.“
Genspect fordæmir niðurstöðuna
Stella O’Malley, forstjóri GenSpect sagði úrskurðinn vera hneyksli.
Iceland has disgraced themselves today. @justgayice is a well informed and honourable man and this kangaroo court will one day regret their decision https://t.co/ct1XQNKFOE
— Stella O’Malley (@stellaomalley3) November 3, 2025
Genspect eru stór og áhrifamikil alþjóðleg samtök sem gagnrýna núverandi nálgun í meðferð og ráðgjöf við kynáttunarvanda ungs fólks. Þau leggja áherslu á svokallaða „varkára nálgun“ (exploratory approach) í stað þess sem þau telja vera of hraða staðfestingu á kynvitund (affirmative model).
Samtökin segjast styðja rétt fullorðinna til að lifa í samræmi við kynvitund sína, en vilja að börn og ungmenni fari fyrst í gegnum ítarlegt sálfræðilegt mat áður en gripið er til hormónameðferða eða skurðaðgerða.
Hægt er að sjá yfirlýsingu Elds í heild sinni hér fyrir neðan.

