Segir stúlkur hafa grátbeðið um að fá brjóstin sín aftur

Nýlegur þáttur Bandaríska þáttastjórnandans Dr. Phil hefur vakið mikið umtal en gestur þáttarins var fyrrverandi aðgerðasinninn Jamie Reed.

Dr. Phil kynnir Jamie sem „hýra konu sem er gift trans manni“ en Jamie vann áður sem umsjónarmaður trans-barna á barnaspítalanum í St. Louis í Bandaríkjunum. Hún taldi sig þá vera að bjarga lífum barna sem voru í kynáttunarvanda en sagði starfi sínu lausu eftir reynslu sína og lýsir atvikum sem henni fannst hafa verið svo siðferðis- og læknisfræðilega röng að hún sér sig tilneydda til að reyna að vekja athygli fólks á því sem hún telur raunverulega vera að eiga sér stað á spítalanum.

Jamie segir að á þeim tæpu fimm árum sem hún vann þar hafi verið unnið eftir því viðmiði að svokölluð kynstaðfestandi meðferð myndi leysa allan andlegan vanda sem börnin sem þangað komu ættu við að stríða. Hún sagðist hafa lýst yfir áhyggjum vegna þess hve lítið af reglum væru til staðar og að einn yfirmaður hennar hafi sagt að þar væri verið að renna blint í sjóinn með slíkar meðferðir.

Jamie Reed

Hún segir að börn og unglingar hafi sjálf séð um eigin greiningu og að mörg hver hafi einungis hitt ráðgjafa eða sálfræðing einu sinni áður en þeim var vísað áfram í meðferðir eða aðgerðir sem sumar voru óafturkræfar.

Hún lýsir því þegar ung stelpa hafi grátbeðið um að fá brjóstin sín aftur eftir að þau voru fjarlægð með skurðaðgerð og að starfsfólki hafi verið skipað að gera ekki mikið mál úr slíku og alls ekki segja öðrum fjölskyldum frá þannig atvikum.

Jamie segir að þau áföll sem hún varð vitni að hafi heltekið hana og hún hafi ekki getað setið hjá lengur eftir að hún fékk þau fyrirmæli að henni væri bannað að koma með frekari athugasemdir þegar hún taldi tilefni til og í þau skipti sem hún gerði alvarlegar athugasemdir við meðferðir sem börn voru send í fékk hún þau skilaboð að kerfið virkaði einfaldlega á þennan hátt.

 

„Ef að barn segist vera trans þá má ekki draga það í efa. Við segjum bara já þú ert trans, hvaða meðferð má bjóða þér?“

 

Hún segist ekki lengur bera neitt traust til þeirra aðferða sem notaðar eru í meðferðum á kynáttunarvanda barna. Þegar hún hóf störf fyrir um fimm árum síðan hafi hún verið að fá til sín um fimm nýja skjólstæðinga á mánuði, stundum allt upp í tíu en á lokaári sínu hafi þetta verið nálægt 50 nýir skjólstæðingar í hverjum mánuði.

Jamie lýsir því að flestir nýir skjólstæðingar hennar hafi verið ungar stúlkur sem stundum komu saman í hópum og í eitt skipti hafi komið til þeirra næstum heill bekkur úr sama skólanum til að fá staðfestingarmeðferð.

Í viðtölum við marga skjólstæðinga tók hún líka eftir því að þær höfðu næstum allar sömu sögu að segja og sama bakgrunn en hún hafi sjálf séð leiðbeiningar á TikTok sem pössuðu við þannig frásagnir. Í þeim tilfellum sem foreldrar voru spurðir út í þennan bakgrunn könnuðust margir hverjir ekkert við þær lýsingar sem Jamie hafði fengið frá stúlkunum.

Hún segir að hver sem stígur fram með spurningar af einhverju tagi varðandi þessi mál sé umsvifalaust stimpluð sem uppfull af fordómum gagnvart trans fólki en að þær meðferðir sem fram fóru á hennar vinnustað styðjist ekki við vísindalega sannreyndar aðferðir á neinn hátt. Stundum hafi ungt fólk komið í einn viðtalstíma sem stóð yfir í hálftíma og kom þaðan út með lyfseðil fyrir hormónabælandi lyf eða jafnvel með tilvísanir í óafturkræfar skurðaðgerðir.

Eftir að hafa byrjað feril sinn með það markmið að hjálpa ungu fólki í vanda segist Jamie ekki lengur geta tekið þátt í því sem þarna eigi sér stað og hefur hún því eytt undanförnu ári í að vara fólk við þessum stofnunum.

Síðan hefur WPATH gagnalekinn svokallaði leitt í ljós að svipuðum aðferðum hefur verið beitt á fjölmörgum öðrum stofnunum sem sérhæfðu sig í samskonar meðferðum og hefur hann orðið til þess að kröfur sem uppfylla þurfi til að fá slík lyf eða heimila aðgerðir hafa verið hertar til muna eða jafnvel bannaðar algjörlega í mörgum löndum og fjölmörgum fylkjum Bandaríkjanna.

Einn reyndasti barnalæknir Bretlands, Dr. Hilary Cass hefur einnig nýlega gefið út skýrslu sem sýnir að illa hefur verið staðið að þessum málum í heilbrigðisgeiranum.

Þá hafa rannsóknarblaðamenn hjá Project Veritas einnig farið á fjölda slíkra stofnana með faldar myndavélar þar sem þeir spyrjast fyrir um hvað þurfi til að barn þeirra geti komist á hormónabælandi lyf og hafa birt mikinn fjölda af myndböndum sem styðja frásögn sögu Jamie.

Hægt er að sjá brot úr viðtali Dr. Phil við Jamie Reed hér fyrir neðan.

 

Auglýsing

læk

Instagram