Tímabundin ráðning loftslagssérfræðings Seðlabankans framlengd án auglýsingar

Tinna Hallgrímsdóttir var fyrir rúmu ári ráðin fyrsti loftslags- og sjálfbærnifræðingur Seðlabanka Íslands. Um var að ræða nýja stöðu hjá bankanum, og greindi Viðskiptablaðið meðal annars frá.

Leitað var svara hjá bankanum við því hvort nýja staðan hefði verið auglýst og hversu margar höfðu sótt um.
Svar Seðlabankans var að: „verkefnum tengdum sjálfbærni á skrifstofu bankastjóra hafi verið sinnt af tilteknum starfsmanni sem sinnti tímabundið öðrum verkefnum og þess vegna hafi verið ákveðið að ráða í tímabundna stöðu sérfræðings í sjálfbærnimálum til að halda áfram að ná heildstætt utan um sjálfbærnivinnu bankans sem tengist öllum málefnasviðum hans. Því hafi starfið ekki verið auglýst heldur var ráðningin gerð á grundvelli heimildar til ráðningar án auglýsingar í störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna.“

Seðlabankinn upplýsti einnig að ráðningin væri til 12 mánaða og mánaðarlaunin kr. 950.000.

Tinna Hallgrímsdóttur fyrrverandi formaður Ungra umhverfissinna var ráðin loftslagssérfræðingur Seðlabankans

Rúmlega ári síðar er Tinna Hallgrímsdóttir enn að sinna sama starfinu í bankanum og starfið ekki verið auglýst. Skýringin skv. upplýsingafulltrúa bankans var að fyrst hafi verið ráðið tímabundið í stöðuna í 12 mánuði en síðan komið í ljós að sá starfsmaður sem afleysingin laut að myndi ekki snúa til baka í verkefnin. Móta þyrfti því umgjörð um sjálfbærnivinnu til frambúðar og í kjölfarið yrði staðan auglýst. Fyrirhugað væri að ljúka þeirri vinnu innan tólf mánaða en sú vinna hafi dregist, segir í svarinu.

Á vef Seðlabankans segir að laus störf séu ávallt auglýst á Starfatorgi og á ráðningarvef Seðlabankans.

Reglur um auglýsingar lausra starfa

Á vef Stjórnarráðsins er einnig að finna reglur um auglýsingu lausra starfa hjá hinu opinbera en þar segir að auglýsa skuli laus störf og að umsóknarfrestur eigi að lágmarki vera tíu dagar frá birtingu auglýs­ingar.

Þar segir ennfremur að einungis megi gera undanþágur á þessum reglum í eftirfarandi tilvikum:
Þegar um er að ræða störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur.
Þegar um er að ræða störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingar- og foreldraorlofs, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana o.þ.u.l., enda sé ráðningunni ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
Þegar um er að ræða störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða og í þeirri auglýsingu hafi þess verið getið að umsóknin geti gilt í sex mánuði frá birtingu.
Þegar um er að ræða störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
Og þegar um er að ræða hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu sem teljast til vinnumarkaðsúrræða.

Ekki verður annað séð en að auglýsa hefði átt nýja stöðu sérfræðings í lofslags-og sjálfbærnimálum hjá Seðlabankanum.

Auglýsing

læk

Instagram