Norðmaður játar að hafa skorið kynfærin undan tugum karlmanna – allt með þeirra samþykki

Norðmaður hefur verið fundinn sekur af dómstólum í London fyrir að hafa fjarlægt kynfæri fjölda karlmanna á árunum 2016 til 2022. Maðurinn framkvæmdi aðgerðirnar í íbúð sinni í London.

Norðmaðurinn fékk greitt frá þessum mönnum fyrir aðgerðirnar og var streymt beint frá aðgerðunum á vefsíðu. Greiða þurfti áskriftargjald til að fá aðgang að vefsíðunni.

Sex aðrir karlmenn hafa verið ákærðir í sama máli en Norðmaðurinn er talinn forsprakki hópsins og verður refsing hans ákveðin á næstu dögum.

Samkvæmt fjölmiðlum í Bretlandi er Norðmaðurinn hluti af hreyfingu sem kallar sig „Nullos“ sem stendur fyrir ‚genital nullification‘ eða kynfæraleysi, og vilja meðlimir hreyfingarinnar láta fjarlægja kynfæri sín (getnaðarlim og eistu) algjörlega.

Þessi hreyfing er ekki ný af nálinni því árið 2012 tók Japanskur listamaður upp á því að láta skera af sér kynfærin sem hann matreiddi síðan og gaf gestum að borða en gestirnir greiddu háar upphæðir fyrir að fá að vera viðstaddir athæfið. Hann sagði þetta vera listrænan gjörning.

Í viðtali sagðist Norðmaðurinn hafa framkvæmt slíka geldingu á 58 öðrum karlmönnum og að hann geymdi kynfæri þeirra í frysti. Hann sagðist hafa látið gelda sig sjálfan svo hann myndi „líta út eins og Ken-dúkka þarna niðri“.

Hann hefur verið kallaður „Geldingaskaparinn“ í fjölmiðlum í Bretlandi og hefur sjálfur látið taka af sér kynfærin, aðra geirvörtuna og annan fótlegginn.

Norðmaðurinn sagði að hann hafi alltaf framkvæmt aðgerðirnar á fagmannlegan hátt en nágrannar hans eru sagðir hafa grunað að eitthvað vafasamt væri á ferðinni sökum tíðrar komu sjúkrabíla heim til Norðmannsins.

Norðmaðurinn hefur einnig verið ákærður fyrir að hafa ógeðfelldar myndir af börnum í fórum sínum.

Þrír aðrir menn voru sakfelldir fyrir að taka þátt í aðgerðum mannsins á honum sjálfum. Einn þeirra fjarlægði geirvörtu hans, annar er karlkyns kynlífsverkamaður sem fékk greiddar 7.000 norskar krónur fyrir að fjarlægja kynfæri mannsins og sá þriðji aðstoðaði Norðmanninn við að frysta fótlegg hans með þurrís þar til fótleggurinn varð svo skaddaður að fjarlægja þurfti fótlegginn á sjúkrahúsi.

Mennirnir þrír fengu frá tveggja og upp í fimm ára fangelsisdóm.

Lögreglukonan Amanda Greig sagði að þetta hefði verið ákaflega flókin rannsókn og réttarhöld, ekki síst vegna þess að ekki var um nein óviljug fórnarlömb að ræða því allir sem að málinu komu gengust viljugir undir aðgerðirnar.

Hún segir einnig að þetta sé einungis toppurinn á ísjakanum því í framhaldi af þessari rannsókn hafi lögreglan nú fundið vísbendingar um alþjóðlegan glæpahring sem sérhæfir sig í slíkum aðgerðum.

Auglýsing

læk

Instagram