27 þúsund íslensk heimili með Netflix, Framsóknarfólk ólíklegt til að kaupa áskrift

Um 27 þúsund íslensk heimili eru með áskrift að Netflix þrátt fyrir að þjónustan sé tæknilega séð ekki í boði á Íslandi. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu.

Gallup kannaði útbreiðslu Netflix á Íslandi fyrir Viðskiptablaðið. Í niðurstöðunum kemur fram að ríflega einn af hverjum fimm Íslendingum er með áskrift að Netflix á sínu heimili, eða 21,6%.

Íslenskum áskrifendum hefur fjölfað um tæplega 30% á 20 mánuðum en 16,7% aðspurðra sögðust vera með áskrift að Netflix í samskonar könnun sem Viðskiptablaðið lét gera í fyrra.

Í könnuninni kemur einnig fram að kjósendur Framsóknarflokksins séu ólíklegastir til að kaupa sér áskrift að Netflix á næstu sex mánuðum.

Einungis 2% þeirra sem segja það öruggt eða líklegt. Kjósendur Vinstri grænna eru hins vegar líklegastir en 26% þeirra segja öruggt að líklegt að þeir kaupi sér áskrift.

Þjónusta Netflix er ekki í boði hér á landi og fólk þarf því að kaupa áskrift eftir krókaleiðum. Netflix hefur þó unnið að því að opna fyrir þjónustu sína hér á landi, eins og Nútíminn hefur fjallað um.

Sjá einnig: Netflix boðar komu sína til Íslands: „Þjónusta okkar verður í boði á Íslandi fljótlega“

Í ágúst boðaði Netflix komu sína til Íslands á vefsíðu sinni í fyrsta skipti opinberlega. „Þjónusta okkar verður í boði á Íslandi fljótlega,“ sagði í skilaboðum á vefsíðu Netflix.

Óvíst er hvenær nákvæmlega þjónustan verður í boði hér á landi. Nútíminn sagði fyrstur fjölmiðla frá því í október á síðasta ári að Netflix væri að vinna að því að opna fyrir þjónustu sína hér á landi.

Í febrúar var svo greint frá því að Sam-félagið hafi náð samningum við Netflix. Þá var gert ráð fyrir að opnað verði fyrir þjónustuna seint á þessu ári. Árni Samúelsson, forstjóri Sam-félagsins staðfesti þetta við fréttastofu RÚV.

Sjá einnig: Netflix prófar að loka á notendur sem fara krókaleiðir að áskrift

Áður en Netflix opnar fyrir þjónustu sína hér á landi þarf fyrirtækið að semja um sýningarréttinn á kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og barnaefni.

Viðræður afþreyingarrisans við íslensku fyrirtækin hófust í fyrra. Búið er að semja við Sam-félagið en í janúar var greint frá því að viðræður við Senu væru langt komnar en að viðræðurnar við Myndform séu ekki eins langt komnar.

Netflix hyggst semja um notkun á íslenskum textum. Heimildir Nútímans herma að fyrirtækið sé þegar byrjað á því og Íslensk fyrirtæki sem sjá um textun séu að þjónusta Netflix.

Auglýsing

læk

Instagram