Auglýsing

9 ára gamalt barn rétt slapp við skammbyssuskot á aðfangadag í Hafnarfirði: Brot úr vegg hæfði andlit barnsins

Litlu mátti muna að 9 ára gamalt barn yrði fyrir skammbyssuskoti í skotárásinni í Álfholti í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld. Flísar úr svefnherbergisvegg barnsins enduðu í andliti þess þegar byssukúlurnar skullu á veggnum.

Samkvæmt heimildum Nútímans var barnið í herbergi sínu þegar árásin átti sér stað en þar má sjá stóra holu í veggnum eftir skammbyssuskot. Skjót viðbrögð heimilisfólksins urðu til þess að hún, sem og aðrir, urðu ekki fyrir skotum úr skotvopninu.

Tveir menn sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins en það var framlengt í gær til 7. febrúar. Það staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Nútímann. Þá segist Grímur ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið. Ákvörðun dómara að framlengja gæsluvarðhaldið um tæpan mánuð gefur til kynna að mennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldi séu þeir sem brutu sér leið inn í íbúðina í Álfholtinu og hleyptu af skotum.

Báðu um myndefni frá íbúum og fyrirtækjum

Nútíminn greindi frá skotárásinni fyrstur miðla rétt eftir miðnætti á aðfangadagskvöld en þá var rætt við íbúa í hverfinu sem var þá ráðlagt að halda kyrru fyrir í íbúð sinni.

„Þetta byrjaði rétt eftir ellefu í kvöld. Þá fóru sérsveitarmenn með hríðskotabyssur að ganga á milli húsa hérna. Við vissum ekki hvað væri að gerast en fengum svo þær upplýsingar núna rétt áðan að þarna hafi skotárás átt sér stað. Okkur var ráðlagt að halda kyrru fyrir inni í íbúðinni okkar.“

Við rannsókn málsins biðlaði lögregla til íbúa og forráðamanna fyrirtækja á Hvaleyrarholti að athuga með myndefni í öryggis- og eftirlitsmyndavélum á svæðinu og koma því til lögreglu ef svo bæri undir. Ekki er vitað hvort lögreglan hafi fengið eitthvað myndefni sent og stuðst við það til að bera kennsl á mennina tvo.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing