Ákæruvaldinu tókst ekki nægilega að sanna sekt stuðningsfulltrúans

Ákæruvaldinu þótti ekki hafa tekist nægilega að sanna sekt stuðningsfulltrúans sem sýknaður var í Héraðsdómi Reykjaness á mánudag eftir að hafa verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn pilti og fjórum börnum, enda þurfi að koma fram fullnaðarsönnun um hvert og eitt brot sem ákært er fyrir. Ákæran var í þrettán liðum og brotaþolarnir voru fimm. Þetta kemur fram í frétt Mbl en dómurinn var birtur í dag.

Sjá einnig: Stuðningsfulltrúinn sýknaður af ákærum um kynferðisbrot: „Þetta vekur upp margar spurningar“

Maðurinn var kærður í ágúst á síðasta ári fyrir að hafa á árunum 2004 til 2010 brotið gróflega gegn ungum pilti. Maðurinn var þá stuðningsfulltrúi piltsins og tveggja systkina hans og síðan hafa systkinin einnig borið vitni um kynferðisofbeldi mannsins í sinn garð. Maðurinn var handtekinn og settur í gæsluvarðhald seinni hluta janúarmánaðar á þessu ári. Þrátt fyrir það vissu barnaverndaryfirvöld ekki af kæru á hendur manninum fyrr en hann var handtekinn.

Hann var kærður fyrir samskonar brot fyrir fimm árum en málið var fyrnt og látið niður falla. Barnavernd Reykjavíkur hafði gert viðvart um manninn mörgum árum fyrr en þrátt fyrir það starfaði hann áfram með börnum.

Í apríl síðastliðnum ákærði héraðssaksóknari manninn fyrir kynferðisbrot og dómur féll nú á mánudag. Í kjölfarið var manninum sleppt úr haldi en hann hafði setið í gæsluvarðhaldi frá því að hann var fyrst handtekinn í janúar.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi ávallt neitað sök en framburður hans hafi einkennst af nokkru minnisleysi.

Dómurinn áréttar það í niðurstöðu sinni að þrátt fyrir að fleiri einstaklingar hafi borið manninn sökum „verði það eitt og sér ekki lagt til grundvallar sakfellingu ákærða.“

Það sé því mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist nægilega að sanna sekt ákærða enda þurfi að koma fram fullnaðarsönnun um hvert og eitt brot sem ákært er fyrir.

Auglýsing

læk

Instagram