Aron Mola missti fimm ára gamla systur sína í hræðilegu slysi: „Maður lærir bara að lifa með þessu“

Leikarinn og samfélagsmiðlastjarnan Aron Már Ólason eða Aron Mola var gestur í Íslandi í dag í gær. Þar ræddi hann meðal annars um það þegar að systir hans lést í slysi aðeins fimm ára gömul og hvernig hann tókst á við áfallið.

Rúm sjö ár eru nú liðin frá því að Eva Lynn, systir Arons, lést í slysi við sumarbústað á Suðurlandi. Atvikið átti sér stað 3. ágúst en Aron fór svo í skólann aftur rúmum tveimur vikum síðar. Hann segist þá hafa getað talað um atvikið eins og ekkert hafi í skorist þar sem að hann hafi enn verið á fyrstu stigum áfallsins.

„Mér fannst það skrítið á þeim tíma að geta talað um systurmissinn svona stuttu eftir að þetta hafði gerst. Svo hélt þetta bara áfram og maður fer í gegnum þessi sjö eða átta stig sorgarinnar. Það verður svo alltaf bara verra og verra af því ég er ekkert að vinna í því,“ segir hann.

Hann segist bara hafa sett upp sterkari og sterkari grímur um að það sé allt í lagi en að lokum hafi hann byrjað að springa og farið að fá köst. Að lokum hafi hann leitað til sálfræðings tveimur árum síðar og það hafi verið það sem bjargaði honum.

Aron segist hafa byrgt tilfinningar sínar inni og leitað í drykkju og vímuefni til að sefa sársaukann áður en hann leitaði til sálfræðings. Hann segist hafa verið með sjálfsskaðandi hugsanir sem hann hafi sem betur fer ekki gert neitt í.

„Þær voru þarna og ég var rosa meðvitaður um þær en ég var líka rosa gagnrýninn á þær sjálfur á sínum tíma, að ég myndi ekki vilja acta á þær. Maður fær svona pælingar í þessu ástandi á fáránlegustu stundum og það þarf ekki nema bara eitthvað smá til þess að maður taki einhverja erfiða ákvörðun,“ segir Aron.

Hann hvetur alla sem líður illa til þess að leita sér hjálpar. Það sé meðal annars hægt með því að hringja í 1717 eða inn á 1717.is.

Þetta áhrifaríka viðtal má sjá her að neðan

Auglýsing

læk

Instagram