Aronmola með samfélagsmiðlastjörnum í höfuðstöðvum Snapchat í LA: „Eitthvað stórt að fara að gerast“

Snapparinn Aron Már Ólafsson, best þekktur sem aronmola, er staddur í Los Angeles eins og 35 þúsund fylgjendur hans á Snapchat hafa tekið eftir. Aron vinnur þar náið með samfélagsmiðlastjörnunum Chris Carmichael og Jerome Jarre en þeir heimsóttu meðal annars höfuðstöðvar Snapchat á dögunum.

Spurður út í málið segist Aron lítið mega segja. „Ég var bara að hitta eitthvað Snapchat-fólk,“ segir hann. Íslendingar kannast við Jerome Jarre eftir að hann boðaði komu sína í Smáralind í janúar árið 2014 á samfélagsmiðlinum Vine með þeim afleiðingum að verslunarmiðstöðin troðfylltist af fólki.

Chris Carmichael er einnig mjög vinsæll á samfélagsmiðlum og hefur komið til Íslands oftar en einu sinni. Aron segir Chris hafa haft samband við sig á Facebook eftir ábendingu um að hann væri einn áhrifamesti snappari landsins „Við erum búnir að vera tala saman á Facebook í mánuð,“ segir Aron.

Ég spurði hann hvort ég ætti ekki að kíkja til hans og núna er ég staddur hér. Chris kynnti mig fyrir Jerome eftir að ég kom út og við erum orðnir góðir vinir eftir þessa þrjá daga.

Chris og Jerome vinna nú að appi en Aron gefur sem fyrr lítið upp, segir aðeins að eitthvað stórt sé að fara að gerast. „Þetta mun tengjast öllu íslandi þegar það að því kemur. Ég get samt ekki sagt mikið meira en það akkurat núna.“

Ljóst er að Aron vill ekki einskorða sig við Ísland og með ferð sinni til Los Angeles vill hann kynnast heimi samfélagsmiðla betur. „Ég hef mikinn áhuga að verða stærri — ekkert endilega festast bara heima,“ segir hann.

Aron segir að Jerome og Chris hafi haft mikil áhrif á sig og að þeir séu ástæðan fyrir því að hann byrjaði á Snapchat fyrir um tveimur árum. „Þegar ég byrjaði í þessu var markmiðið einfaldlega að sjá hvort að fólk myndi fíla efnið sem ég var að gera sjálfur,“ segir hann.

„Fólk var að taka mjög vel í þetta allt saman og ég setti ég mér þau markmið að ná 2.000 fylgjendum, svo 10 þúsund og koll af kolli. Nú ég er kominn upp í 35-36 þúsund manns og er bara að stækka.“

Aron segist vilja miðla góðum boðskap. „Ég er farinn að átta mig betur á því hversu mikil áhrif ég hef og hversu mikil fyrirmynd ég er orðinn fyrir marga krakka þarna úti. Ég held að það sé frábært að miðla góðum boðskap til ungu kynslóðarinnar og vera þessi mikla fyrirmynd.

Hann vill leggja aukna áherslu á áhrif hans á stráka „Ég vil leggja áherslu á að við megum alveg vera tilfinningaríkir og viðkvæmir,“ segir Aron.

Nútíminn greindi á dögunum frá því að samfélagsmiðlaþjónustunan Takumi ætli að bjóða upp á þjónustu sína á Íslandi fyrir helstu Snapchat– og Instagram-stjörnur landsins fyrir jól.

Takumi, sem á rætur sínar að rekja til Íslands, tengir saman áhrifavalda (e. influencers) á samfélagsmiðlum við fyrirtæki og gerir þeim kleift að vinna saman. Hingað til hefur þjónusta Takumi aðeins verið í boði í Bretlandi en fyrirtækið opnaði nýverið fyrir þjónustu sína í Þýskalandi.

Aron er vinsælasti Snappari landsins og ætlar að starfa með Takumi. Hann finnur fyrir gríðarlegum áhuga frá fyrirtækjum. „Síminn stoppar ekki. Fyrirtæki, einstaklingar og skólar hafa samband og það er nóg að gera. Ég þarf að fara fá mér umboðsmann, þetta er aðeins of mikið,“ segir Aron léttur.

Auglýsing

læk

Instagram