Átakið #allirkrakkar fer af stað í dag: „Það er mikilvægt að fræða alla krakka um kynlíf og gera þarf betur þegar kemur að samskiptum og mörkum“

Í dag hefst herferð Stígamóta #allirkrakkar en markmið hennar er að safna fé til að stofna fræðslumiðstöð innan Stígamóta sem sinnir fræðslu og forvörnum gegn kynferðisofbeldi. Í dag kom út leikin auglýsing sem endurspeglar reynslu brotaþola sem leita til Stígamóta. Myndbandið sýnir þroskasögu tveggja krakka og hvernig staðalmyndir hafa alvarleg áhrif á samskipti þeirra.

Markhópur átaksins er almenningur á Íslandi en sérstaklega er höfðað til foreldra um að taka þátt í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Allir krakkar geta orðið gerendur kynferðisofbeldis og allir krakkar geta orðið þolendur kynferðisofbeldis.

„Auðvitað viljum við ekki að börnin okkar upplifi þessar aðstæður og þess vegna þurfum við að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi,“ segir í tilkynningu Stígamóta.

„Auglýsingin er þroskasaga krakka. Það má sjá stráka sem horfa á klám, sýnir fyrirmyndir stelpna. Eins og Kim Kardashian sem dæmi. Fyrirmyndir sem eru ekkert endilega mjög jákvæðar. Hún sýnir það hvernig börn alast upp við staðalímyndir og hversu lítið mótvægi er við þeim. Það er engin gagnrýni á þær,“ segir Anna Bentína, starfskona Stígamóta í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Hún er sjokkerandi. Við gerum okkur fulla grein fyrir því. En hún á að vera það og það er markmiðið að fólk staldri við og hugsi,“ segir Anna Bentína í Fréttablaðinu.

Allir eru hvattir til að styrkja forvarnastarf Stígamóta með því að senda SMS-ið ALLIRKRAKKAR í 1900 til að leggja þannig kr. 1900 til nýrrar fræðslumiðstöðvar Stígamóta. Átakið mun ná hámarki fimmtudagskvöldið 1. nóvember kl. 20:40 með fræðsluþætti á RÚV. 

Sjáðu auglýsinguna


Í tilkynningu frá Stígamótum segir:

Meðalaldur íslenskra stráka þegar þeir horfa á klám í fyrsta skipti er 11 ár. Klámefni sem er aðgengilegt öllum á netinu í dag er í flestum tilfellum ofbeldisfullt og dregur ekki upp raunsæja mynd af kynlífi. 45% stráka í 8.-10. bekk á Íslandi horfa á klám einu sinni í viku eða oftar sem segir okkur að mjög margir strákar hafi séð margfalt fleiri klukkustundir af klámi en þeir hafa fengið af kynfræðslu og umræðu um þessi mál. Í klámi er markaleysi allsráðandi og lítil áhersla á samþykki og heilbrigð samskipti þannig að myndin sem margir strákar fá af kynlífi er ansi skekkt og óraunsæ.

Tölfræði Stígamóta sýnir að gerendur kynferðisofbeldis eru fyrst og fremst ungir menn. Jafnframt eru 70% þolenda undir 18 ára aldri þegar þau verða fyrir kynferðisofbeldi og endurspegla frásagnir þeirra oft áþreifanlega áhrif kláms. Kynferðisofbeldi er ekki náttúrulögmál heldur lærð hegðun og rannsóknir sýna að þar geti klámáhorf spilað stórt hlutverk og haft mikil áhrif, t.a.m. á viðhorf til kynlífs, upplifunar á kynlífi, kynverund áhorfandans og viðhorfs til kvenna. Það á enginn rétt á kynlífi – en sá sem heldur það er mjög líklegur til að fara yfir mörk.

Á tímum óraunsærra fyrirmynda á samfélagsmiðlum og aukins aðgengis að klámi er mikilvægt að veita mótvægi við því áreiti sem krakkar fá þaðan um kynlíf og samskipti kynjanna. Það er mikilvægt að fræða alla krakka um kynlíf og gera þarf betur þegar kemur að samskiptum og mörkum. Sá sem beitir ofbeldinu er alltaf ábyrgur fyrir því – hins vegar ber samfélagið ábyrgð á því afskiptaleysi sem klámáhorfi unglinga er sýnt. Foreldar eru hluti af þessu samfélagi en þetta er ekki eingöngu þeirra viðgangsefni heldur einnig stjórnvalda, menntakerfisins og almennings alls. Klámvæðing og nauðgunarmenning varðar samfélagið og við verðum öll að vakna og hætta að líta undan!

#allirkrakkar þurfa að læra hvar mörkin liggja
#
allirkrakkar vita miklu meira en við höldum
#allir
krakkar þurfa ást, aðhald og umhyggju
#
allirkrakkar eiga að fá fræðslu um samþykki

Auglýsing

læk

Instagram