Atli ekki ánægður með tónleika Guns ‘N Roses í Osló: „Þessir piltar eru bara búnir“

Mikil eftirvænting er eftir stórteinleikum rokkhljómsveitarinnar Guns ‘N Roses sem verða haldnir á Laugardalsvelli næsta þriðjudag. Íslendingur sem fór á tónleika hljómsveitarinnar í Noregi í gær var allt annað en ánægður með upplifun sína.

Atli Steinn Guðmundsson birti færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði tónleikana líklega vera mestu tímasóun ævi sinnar en hann gafst upp og fór heim klukkan 21. Lúdó og Stefán hefðu staðið sig betur en þessir piltar séu einfaldlega bara búnir.

„Þetta var ekki krónu virði“


Í samtali við Fréttablaðið sagði Atli að um 40 þúsund manns hafi mætt á tónleikana. „Fólk fór að labba út klukkan níu, eftir fjögur lög,“ segir Atli og bætir við að tónleikagestir hafi orðið fyrir rosalegum vonbrigðum.

Atli sagði að Axl Rose söngvari hljómsveitarinnar væri búinn að missa röddina en að hann haldi að hann sé ennþá með hana. „Hann kom þarna spikfeitur inn á sviðið og bjóst við að Slash myndi redda sér.“

„Menn þurfa bara að þekkja sinn vitjunartíma, þeir verða að sætta sig við að þeir eru ekki það sem þeir voru árið 1988.“

Hann viðurkennir þó fúslega að hann sé enginn tónlistarspekúlant en hann sé búinn að vera aðdáandi hljómsveitarinnar síðan hann var 14 ára. „Ég hélt ég myndi allavega sitja alla tónleikana.“

Aðspurður út í tónleikana sem verða hér á þriðjudag sagðist Atli engu geta spáð fyrir um þá. „Ég vona innilega að þeir komist á strik fyrir tónleikana á Íslandi, en ég varð fyrir miklum vonbriðgum. Kannski verður þetta betra þá en þetta var rosalega slæmt í kvöld.“

Af umfjöllun norska fjölmiðla er ekki að sjá að þetta hafi verið slæmir tónleikar og er gagnrýnandi fjölmiðilsins VG hæstánægður með upplifunina. Stemningin á tónleikunum hafi verið góð og þó rokkararnir séu ekki jafn beittir og á árum áður hafi upplifunin verið jafn góð.  Hægt er að lesa gagnrýnina í heild sinni hér.

Auglýsing

læk

Instagram