Atli Rafn sendir frá sér yfirlýsingu: „Mér hefur ekki verið greint frá því hvers eðlis þær ásakanir eru“

Atli Rafn Sigurðarson hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að sér hafi ekki verið greint frá hvers eðlis ásakanir sem leiddu til brottrekstur hans úr Borgarleikhúsinu séu.

„Í fjölmiðlum í dag kom fram að mér hafi verið sagt upp störfum hjá Borgarleikhúsinu,“ segir hann í yfirlýsingunni.

Brottreksturinn kemur til vegna nafnlausra ásakana á hendur mér, sem tengjast þeirri þörfu umræðu í samfélaginu sem kennd er við „Me Too“. Mér hefur ekki verið greint frá því hvers eðlis þær ásakanir eru, frá hvaða tíma, hverjir eiga í hlut, né nokkuð annað sem getur gert það að verkum að ég geti tjáð mig um þær.

Hann segist því ekki ætla að tjá sig frekar um málið. „Ég þakka starfsfólki Borgarleikhússins kærlega fyrir samstarfið og harma að það hafi endað á þessum nótum,“ segir hann.

Sjá einnig: Borgarleikhúsið sendir frá sér tilkynningu: „Ákvörðun um uppsögnina var vel ígrunduð“

Eins og Nútíminn greindi frá í dag þá hefur leikaranum Atla Rafni Sigurðarsyni hefur verið sagt upp störfum í Borgarleikhúsinu. Samkvæmt Vísi er ástæðan ásakanir sem hafa verið settar fram í tengslum við #metoo-byltingina. Í frétt DV er svipað uppi á teningnum; þar er talað um að Atli hafi verið sakaður um kynferðislega áreitni í lokuðum hópi kvenna í sviðlistum á Facebook.

587 konur sem starfa í sviðslistum á Íslandi skrifuðu undir áskorun í lok nóvember þar sem þess er krafist að karlar inna geirans taki ábyrgð og að yfirvöld, leikhús og framleiðslufyrirtæki taki af festu á kynferðislegri áreitni, ofbeldi og mismunun og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlun.

Sjá einnig: Konur í sviðslistum stíga fram: „Þú veist að hann réði þig bara vegna þess að hann vill komast í nærbuxurnar hjá þér“

Engin svör fást frá Borgarleikhúsinu um málið en á Vísi kemur fram að Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri hafi fyrirvaralaust vikið Atla Rafni frá húsinu.

Búið er að taka leiksýninguna Medeu í leikstjórn Hörpu Arnardóttur úr sölu. Til stóð að frumsýna sýninguna 29. desember næstkomandi og átti Atli Rafn að vera í stóru hlutverki.

Í frétt Vísis kemur fram að Atli sé að skoða rétt sinn. „Stjórnendur leikhússins vísa hins vegar til þess að það sé sjálfseignastofnun og þurfi því ekki að fara eftir þeim verkferlum sem opinberar stofnanir þurfa að hlíta,“ segir í frétt Vísis.

Auglýsing

læk

Instagram