Bára lokuð af í þrjá daga: „Ég ætla að sýna raunverulegt líf öryrkja“

Bára Halldórsdóttir, sem flestir Íslendingar kannast við úr Klausturs-málinu víðsfræga, stendur fyrir sérstökum listagjörningi á listasýningunni RVKFringe Festival í byrjun júlí. Safnað var fyrir listagjörningnum á hópfjármögnunarsíðu Karolina Fund og náði verkefnið 131% söfnun og safnaði þannig rúmlega 460.000 kr..

Sýningunni svipar til Almars í kassanum, sýningum Marinu Abramovich og öðrum þekktum sýningum um heim allan þar sem listamaðurinn er sjálfur viðfangsefnið. Sýningin ber titilinn INvalid / ÖRyrki og er ætlað að sýna veruleika öryrkjans. Bára, sem sjálf er öryrki, verður þannig sýningargripurinn og verður hún afstúkuð í búri, umkringd hlutum hins daglega lífs öryrkjans.

„Ég verð þarna sjálf því venjulega sér fólk bara öryrkja þegar þeir eru tiltölulega hressir. Fólk sér mann kannski einu sinni á mánaðarfresti í einhverju afmæli eða boði og undrast á því hvað maður lítur vel út. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því að til þess að komast út úr húsi þurfti ég að háma í mig hálfan lyfjaskápinn og erfiða í marga klukkutíma til að greiða mér og komast í föt“ segir Bára. Hún segir að „ósýnilegir“ sjúkdómar verði enn fyrir fordómum í samfélaginu og fæstir geri sér grein fyrir því hvernig lífi margir öryrkjar lifi.

Til sýnis verða einnig útprentuð samskipti Báru við hin ýmsu kerfi eins og heilbrigðiskerfið, velferðarráðuneytið og annað sem snýr að daglegu kerfisbrasi öryrkjanna. Þá verða einnig persónulegir munir hennar og ljósmyndir til sýnis, til þess að gefa skýra mynd af lífi hennar og örorku.

Bára segist þó aðeins vera eitt einstakt dæmi um öryrkja og þeir séu eins mismunandi og þeir eru margir. Hún hefur talað mjög opinberlega um veikindi sín og örorku og flutt ákveðna útgáfu af þessum gjörningi í gegnum samfélagsmiðla en þegar tækifærið gafst að halda raunverulegan listagjörning stóðst Bára ekki mátið og sló til samstundis.

Bára mun dvelja í þrjá daga á meðan hátíðinni stendur í litlu rými, með rúmi og öðrum nauðsynjum en verður girt af í hálfgerðu búri, sem sýna á fram á einangrun margra öryrkja og langveikra. Bára mun aðeins geta haft samskipti við umheiminn í gegnum samfélagsmiðla og á sú einangrun að vera táknræn fyrir dæmigerða, félagslega einangrun sem margir í hennar stöðu upplifa.

Sýningin verður sett formlega á Listastofunni síðla kvölds mánudaginn 30. júní en það er jafnframt opnunaratriði RVKFringe Festival. Klukkan 23:00 fer Bára inn í búrið sem táknar dæmigerðan veruleika öryrkjans og kemur þaðan út kvöldið 3. júlí.

Fyrir áhugasama má skoða viðburðinn nánar hér á Facebook og vefsíðu Listastofunnar.

Auglýsing

læk

Instagram