Brynjar Níelsson efast um að Sigmundi Davíð hafi í raun verið mútað

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, er ekki viss um að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni hafi í raun verið mútað af aðilum á vegum vogunarsjóða, líkt og Sigmundur hélt sjálfur fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni um helgina. Brynjar segir að Sigmundur verði að segja hreint út hvort þetta sé raunin.

Þetta kom fram í viðtali við Brynjar á Bylgjunni í morgun.

Þrír vogunarsjóðir og Goldman Sachs-bankinn keyptu á dögunum samtals 29,18 prósent hlut í Arion banka. Ekki liggur fyrir hverjir endanlegir eigendur fjármagnsins sem notað var í kaupin eru.

Sigmundur Davíð sagði í Sprengisandi að þessir aðilar hefðu möguleika á að beita ýmsum aðferðum til að hámarka hagsmuni sína og sagði að stjórnmálamenn yrðu að þora að standa upp í hárinu á þeim.

Sjá einnig: Sigmundur segir að reynt hafi verið að múta sér: „Oftar en einu sinni voru menn sendir til að tala við mig“

Sigmundur Davíð sagði að kaupendahópurinn hafi beitt ýmsum ráðum í ýmsum löndum. Þá sagði Sigmundur að reynt hafi verið að múta honum. „Mér var boðið að leysa málin á þann hátt að ég gæti verið sáttur við það og þeir yrðu sáttir og málið leyst,“ sagði hann.

„Mér var reyndar líka hótað – oftar hótað en boðin ásættanleg lausn. Það voru oftar en einu sinni menn sendir að tala að við mig, spyrja hvort ég væri ekki til í að klára þetta mál þannig að allir gætu vel við unað,“ sagði Sigmundur.

Brynjar segir að Sigmundur verði að segja hreint út um hvort þetta sé raunin, að honum hafi verið mútað af þessum aðilum þegar hann var forsætisráðherra.

„Ég vil auðvitað að fyrrverandi forsætisráðherra segi nákvæmlega hvað gerðist úr því að hann er búinn að segja það hálfpartinn, gefa það í skyn að honum hafi verið mútað. Hann verður að segja það nákvæmlega hvað menn voru að reyna að gera,“ sagði Brynjar.

Auglýsing

læk

Instagram