Chino í Deftones syngur í kvikuhólfi Þríhnúkagígs, fyrstu tónleikar heims inni í eldfjalli

Chino Moreno, söngvari Deftones, kemur fram á sérstökum aukatónleikum Secret Solstice-tónlistarhátíðarinnar ofan í Þríhnúkagíg. Tónleikarnir fara fram á laugardaginn og í tilkynningu frá hátíðinni kemur fram að þetta séu fyrstu tónleikar heims sem fara fram inni í eldfjalli.

Chino spilar tónlist sína órafmagnaða og Snorri Helgason hitar upp. Aðeins tuttugu miðar voru í boði og þeir seldust upp á örfáum dögum, löngu áður en tilkynnt var hver myndi koma fram í eldfjallinu.

Tónleikagestirnir verða látnir síga rúmlega hundrað metra ofan í jörðina þar sem tónleikarnir fara fram, í kvikuhólfi Þríhnúkagígs. „Fyrir þá sem hafa einhverjar áhyggjur af því að hlusta á lifandi tónlist í eldfjalli þá segja landfræðingar lítið hægt að hafa áhyggjur af þar sem að Þríhnúkagígur hefur ekki gosið í um fjögur þúsund ár,“ segir í tilkynningu frá hátíðinni.

Í fortíðinni hafa nokkrir tónleikar farið fram ofan á eldfjöllum víðsvegar um heiminn, til dæmis í Kanarí og Hawaii. Þetta verða fyrstu tónleikarnir sem fara fram inn í eldfjallinu sjálfu, ekki ofan á því.

Secret Solstice-tónlistarhátíðin hefst á fimmtudaginn og stendur um helgina en Deftones kemur fram á aðalsviði hátíðarinnar á laugardaginn 18. júní. Örfáir miðar eru eftir á hátíðina og er hægt að nálgast þá á vefsíðu hátíðarinnar.

Auglýsing

læk

Instagram