Conor McGregor handtekinn aftur

Auglýsing

Írinn Conor McGregor var handtekinn í gær fyrir að hafa brotið og rænt farsíma aðdáanda síns fyrir utan Fontainebleau-hótelið í Miami. Brotið á að hafa átt sér stað aðfaranótt mánudags, en Conor McGregor var handtekinn rétt fyrir klukkan sex í gær að staðartíma.

Samkvæmt TMZ.com kemur fram í lögregluskýrslu vegna málsins að um fimm um morguninn á mánudag hafi aðdáandinn, eigandi umrædds farsíma, verið að ganga út af hótelinu á sama tíma og McGregor, en þegar aðdáandinn reyndi að taka mynd af McGregor sló McGregor símann úr höndunum á honum þannig að síminn féll í götuna. McGregor á þá að hafa stappað á símanum nokkrum sinnum og skemmt hann enn frekar, áður en hann tók hann upp og gekk í burtu með hann. Svo virðist sem atvikið hafi verið tekið upp á eftirlitsmyndavél.

McGregor var kærður fyrir rán, valdbeitingu og óspektir á almannafæri og var haldið gegn 12.500 dollara tryggingu, sem samsvarar um einni og hálfri milljón króna, sem hefur þegar verið greidd. Hann var látinn laus klukkan ellefu í gærkvöldi að staðartíma.

Auglýsing

Þegar hann gekk út úr fangelsinu stransaði McGregor ekki út fullur sjálfstrausts eins og venjulega, heldur var hann mun hlédrægari en fólk á að venjast.

Lögfræðingur McGregor gaf út yfirlýsingu skömmu eftir handtökuna þar sem hann segir að McGregor hafi verið „hluti af smávægilegri deilu vegna farsíma sem leiddi til þess að hringt var í lögreglu“ og að „McGregor kunni að meta viðbrögð lögreglunnar og lofi fullri samvinnu“.

Ekki er ljóst hvers vegna McGregor var á ferð fyrir utan þetta hótel klukkan fimm um morguninn, en að sögn TMZ virðist sem hann og aðdáandinn hafi báðir verið að yfirgefa LIV næturklúbbinn, sem er inni á hótelinu og lokar klukkan fimm á næturna.

McGregor hefur verið í Flórída undanfarna daga með fjölskyldunni sinni, sem var að halda upp á afmæli móður hans. McGregor leigði Versace-setrið fyrir veisluna, en hefur greinilega ekki verið búinn að fá nóg af skemmtanalífinu.

Slapp með skrekkinn

Samkvæmt TMZ virðist McGregor hafa sloppið með skrekkinn vegna þessa atviks, því það eru aðeins örfáir dagar síðan hann losnaði af skilorði eftir að hafa hent kerru í rútu sem var full af UFC-bardagamönnum í apríl á síðasta ári.

Hann hefur skilað af sér fimm dögum af samfélagsþjónustu í kirkjum í Brooklyn vegna málsins, ásamt því að klára reiðistjórnunarnámskeið, greiða sekt og fá á sig nálgunarbann gagnvart tveimur bardagamönnum sem meiddust í árásinni. Ef hann hefði rofið skilorð væri hann mjög líklega á leið í steininn.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram