DV segir Hönnu Birnu hafa beitt Stefán þrýstingi

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra beitti Stefán Eiríksson lögreglustjóra þrýstingi til þess að hafa áhrif á rannsókn lekamálsins svokallaða. Þetta kemur fram í DV í dag. Þar kemur einnig fram að Stefán hafi sagt upp störfum vegna afskipta ráðherrans. Þessu hafnar Stefán á Twitter í dag en eftir standa ásakanir um að Hanna Birna hafi beitt sér í málinu. Hanna Birna segir í skriflegu svari til RÚV að fullyrðingar DV séu rangar.

Lekamálið snýst um rannsókn á hvernig minnisblað úr innanríkisráðuneytinu barst til 365 og Morgunblaðsins. Í minnisblaðinu komu fram einkamál hælisleitandans Tony Omos ásamt öðrum upplýsingum. 

Haft er eftir heimildarmönnum DV að Hanna Birna hafi kallað Stefán á fund í ráðuneytinu og beitt hann þrýstingi til að hafa áhrif á rannsókn málsins. Í DV kemur einnig fram að um svipað leyti og Stefán sótti um forstjórastarf hjá Samgöngustofu hafi hann rætt við Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara um „illbærilegan“ þrýsting sem hann hefði orðið fyrir af hálfu ráðherra. Hvorki Stefán né Sigríður hafna þessu.

Stefán segist í samtali við fréttastofu RÚV ekki hafa neinu við það að bæta hvers vegna hann ákvað að hætta sem lögreglustjóri. Hann hafi sótt um annað starf, sem formaður velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, og fengið það.

DV hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfarið á svari Hönnu Birnu:

DV stendur við frétt sína. Stefán Eiríksson ákvað að skipta um starfsvettvang eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafði þrýst á hann með grófum hætti vegna lögreglurannsóknar á Lekamálinu, bæði á fundi í ráðuneytinu og í símtölum.

Stefán hefur ekki hafnað því að þessi afskipti hafi átt sér stað. Óyggjandi heimildir DV herma að hann hafi lýst því við nána samstarfsmenn að honum væri illa sætt í starfi og hann óttaðist að reiði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innaríkisráðherra gæti bitnað á lögreglunni.

Einnig bar Stefán sig upp vegna málsins við ríkissaksóknara áður en hann ákvað að hætta störfum sem lögreglustóri höfuðborgarsvæðisins.

Reynir Traustason, ritstjóri DV.

Auglýsing

læk

Instagram