Eftirpartí Eddunnar eyðilagði upplifun bíógesta: „Ég sé eiginlega rautt eftir þessa bíóferð“

Hrollvekjuunnendur eru bálreiðir eftir sýningu á The Witch í Bíó paradís í gærkvöldi. Eftirpartí Edduverðlaunahátíðarinnar var haldið á sama tíma í kvikmyndahúsinu og fór það langt með að eyðileggja upplifun bíógesta.

Eyvindur Karlsson deilir upplifun sinni í Facebook-hópnum Kommóðu Kalígarís, sem er stuðningshópur áhugafólks um hryllingskvikmyndir. Hann tekur fram í færslu sinni að myndin hafi verið frábær en að hann sjái rautt eftir bíóferðina. Fleira fólk sem var á sýningunni tekur undir orð Eyvindar.

Upplifunin er að mestu ónýt, því Bíó paradís ákvað að hafa hávært, öskrandi partý frammi á meðan, og eins og þeir vita sem sáu myndina keyrir hún mikið til á þögnum og hljóðlátum óhugnaði.

Hann segir ekkert spes að hafa bassadrunur og háværan klið partýgesta beint fyrir utan en það heyrðist mjög vel í gegnum dyrnar.

„Ekki bætti úr skák að fólk var á rápi inn og út úr salnum alla myndina, og þegar opnað var fram hætti maður að heyra orðaskil,“ segir hann.

„Ég hef aldrei gengið jafn pirraður út úr bíói eftir jafn góða mynd. Þetta eyðilagði upplifunina gjörsamlega fyrir okkur. Nú er það á hreinu – ég er hættur að reyna að sjá hryllingsmyndir í bíó.“

Nútíminn hafði samband við Eyvind sem var þá nýbúinn að fá svar frá Bíó paradís við kröfu sinni um endurgreiðslu. Hann var ánægður með viðbrögðin enda fékk hann endurgreiðsluna ásamt tveimur frímiðum á almenna sýningu.

Auglýsing

læk

Instagram