Ein launahæsta leikkona heims horfin – Hefur ekki sést í meira en mánuð

Aðdáendur kínversku leikkonunnar Fan Bingbing eru orðnir áhyggjufullir en hún hefur ekki sést opinberlega síðan 1. júlí þegar hún heimsótti barnaspítala.

Kínverskir fjölmiðlar fjalla nú mikið um meint hvarf leikkonunnar en í frétt BBC kemur fram að hún sé ein launahæsta og vinsælasta leikkona í heiminum. Árið 2015 var hún í fimmta sæti á lista Forbes yfir launahæstu leikkonur heims. Þar var hún ofar en leikkonur á borð við Juliu Roberts og Charlize Theron.

Í maí var hún sökuð um skattsvik en kvikmyndaver hennar hefur harðneitað þeim ásökunum. Talsmenn kvikmyndaversins vilja ekki tjá sig um hvar hún sé niðurkomin.

Aðdáendur eru einnig áhyggjufullir vegna lítillar virkni á samfélagsmiðlum hennar. Hún setti síðast inn færslu þar 2. júní en 62 milljónir fylgja henni á samfélagsmiðlinum Sina Weibo. Síðasta virkni hennar á miðlinum var 23 júlí þegar hún setti „like” við nokkrar færslur.

Kínverskir fjölmiðlar hafa reynt að ná sambandi við Fan og aðstandendur hennar síðustu daga án árangurs.

Auglýsing

læk

Instagram