Fangaði gleðina á meðan þjóðsöngurinn ómaði á Laugardalsvelli

Ljósmyndarinn Eyjólfur Garðarsson tók magnaða mynd fyrir landsleik Íslands og Noregs um síðustu helgi. Á myndinni fangar Eyjólfur gleði þeirra krakka sem fengu að fylgja landsliðsmönnum inn á völlinn.

Það voru börn úr Klettaskóla sem fylgdu leikmönnum inn á völlinn en Klettaskóli er sérskóli á grunnskólastigi sem þjónar öllu landinu. Reykjavíkurborg rekur skólann en flestir nemendur skólans eru búsettir í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum.

Myndin er afar falleg og á henni sést vel hvað krakkarnir njóta augnabliksins sem þau höfðu undirbúið sig fyrir í margar vikur.

Eyjólfur sem hefur myndað landsleiki á Laugardalsvelli oft áður segir  í umsögn um myndina á Kassinn.net að þetta skipti hafi verið sérstakt.

Eins og svo oft áður myndaði ég landsleik á Laugardalsvelli fyrir KSÍ. Ætli skiptin séu ekki orðin 40 eða 50. Þar er alltaf stemmning og óvíða skemmtilegra að vera. Víkingaklapp, mark frá Gylfa Sig og smávegis rigning; sumt er einfaldlega hægt að stóla á.

Þessi leikur skar sig úr að einu leyti – fyrir utan að Lars Lagerbäck stýrði liði mótherjanna! – og það var að krakkar úr Klettaskóla fylgdu leikmönnum inn á völlinn. Eins og vanalega reyndi ég að ná góðum myndum af lukkukrökkunum með leikmönnum. Myndin er tekin meðan þjóðsöngur Íslands ómaði en þá er vanalega röð og regla á hlutunum, allir einbeittir, uppstilltir og jafnvel vatnsgreiddir.

Þarna litu hlutirnir ögn öðruvísi út og það heldur betur á jákvæðan hátt! Þessi mynd fangar sakleysið, gleðina og fjölbreytileikann með hætti sem fáar myndir sem ég hef tekið hafa náð að gera. Ég vil ekki hafa fleiri orð um útkomuna en læt myndina tala sínu máli.”

Mynd Eyjólfs má sjá að ofan.

Auglýsing

læk

Instagram