Ferðamenn pollrólegir yfir rútubanni í miðborginni: „Hver vill sjá svo stóra bíla keyra um hverfið sitt?“

Ferðamenn sem eru í viðtali í Morgunblaðinu í dag áttu ekki von á því í rúturnar sem fluttu þau á gistiheimili í Reykjavík myndu keyra þau upp að dyrum. Þá segjast þeir skilja sjónarmið íbúa, sem hafa mótmælt stórum rútum í miðborg Reykjavíkur.

Allur akstur bíla sem taka fleiri en átta farþega var bannaður í miðborg Reykjavíkur frá og með laugardeginum 15. júlí. Safn- og sleppisvæðum hefur verið komið upp á tólf stöðum umhverfis bannsvæðið. Upplýsingar um þau er að finna á vefnum busstop.is.

Ferðaþjónustuaðilar hafa mótmælt aðgerðinni. Samtök ferðaþjónustunnar segja í bréfi til borgarráðs að þessi takmörkun sé mjög íþyngjandi aðgerð sem hafi verulega neikvæð áhrif á bæði þá sem veita viðkomandi þjónustu og þá sem hana þiggja.

Morgunblaðið fjallar um málið í dag. Þar segist Nickie frá Bretlandi ekki hafa átt vona á því að rúta myndi keyra þau alla leið að gistiheimilinu. „Það væri vissulega fínt að vera skutlað upp að dyrum, en ef gangan er ekki of löng skiptir það ekki miklu. Svo framarlega sem það rignir ekki,“ sagði hún.

Við vissum að hverju við gengum þegar við pöntuðum rútuna.

Morgunblaðið talaði einnig við Katie og Bonnie frá Bandaríkjunum sem skildu sjónarmið íbúa og sögðu göngutúrinn frá stoppistöðinni ekki hafa valdið sér neinum sérstökum óþægindum. „Hver vill sjá svo stóra bíla keyra um hverfið sitt?“

Auglýsing

læk

Instagram