Ferðamenn tjölduðu fyrir fram skilti sem bannaði það í Hvalfirði, hefðu getað tjaldað nánast alls staðar annars staðar í firðinum

Ferðamenn sem ákváðu að tjalda við Botnsá í Hvalfirði í gær vöktu athygli vegfarenda fyrir þær sakir að þeir ákváðu að tjalda tjaldinu sínu við hliðna á stóru skilti þar sem tekið er skýrt fram bæði með tákni og stöfum að ekki megi tjalda eins og sést á myndinni hér fyrir ofan. Það er Eyjan sem greinir frá.

Samkvæmt fréttinni var það árvökull góðborgari sem tók myndina á ferð sinni um Hvalfjörðinn í gærkvöldi.

Nokkuð hefur verið um að ferðamenn kvarti undan óljósum merkingum á Íslandi en þetta skilti er þó nokkuð stórt og áberandi og þar að auki með alþjóðlegu myndmáli og því ekki hægt að ásaka neinn um óljósar merkingar.

Fram kemur í fréttinni að blaðamaður Eyjunnar hafi ekki fengið staðfest hvort um lesblindu eða bíræfni ferðamannanna hafi verið að ræða en brotaviljinn virðist einbeittur við fyrstu sýn.

Blaðamaður rifjar einnig upp lög um náttúruvernd sem tilgreina hvar sé heimilt að tjalda á Íslandi en í lögunum kemur fram að við alfaraleið í byggð megi tjalda til einnar nætur á óræktuðu landi, sé ekkert tjaldsvæði í nánd og landeigandi hafi ekki bannað það með merkingum. Þá megi einnig tjalda við alfaraleið í óbyggðum, hvort sem er á eingarlandi eða þjóðlendu og sama eigi við um eignarland og þjóðlendur utan alfaraleiðar.

Þannig að með öðrum orðum mátti viðkomandi ferðamaður tjalda nánast alls staðar annars staðar í Hvalfirðinum nema á þessum eina bletti þar sem búið var að banna tjöldun með merkingu.

Í lögunum kemur einnig fram að engin sérstök viðurlög séu við því að tjalda á bannsvæði, svo framarlega sem engin spjöll hafi verið unnin á landinu.

Auglýsing

læk

Instagram