Forseti Íslands búinn að opna nýju Facebook-síðuna, þúsundir hafa þegar lækað

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur opnað nýja Facebook-síðu þar sem hann hyggst segja frá verkefnum sínum í embætti forseta Íslands. Rúmlega 15.500 manns hafa lækað síðuna þegar þetta er skrifað.

Sjá einnig: Nýr forseti verður á Facebook

Guðni segir í færslu á nýju síðunni ætla að bjóða fólki fylgjast með því sem hann gerir frá degi til dags ásamt því að gera sitt besta við að svara spurningum fólks. Dagskrá forseta Íslands hefur hingað til aðeins verið aðgengileg á vef embættisins.

Búast má við að dagskrá mín verði þéttskipuð og því get ég ekki lofað að svara öllum spurningum eða ábendingum sem kunna að berast. En ég mun gera mitt besta í því efni.

Margir þjóðhöfðingjar halda úti Facebook-síðu til að gefa fólki innsýn í störf sín. Barack Obama Bandaríkjaforseti er til að mynda með tæplega 50 milljónir fylgjenda á Facebook-síðu sinni sem er uppfærð mjög reglulega.

Nútíminn ræddi við Guðna í lok júní um möguleikann á því að nota Facebook í nýja starfinu. Þá hafði hann ekki tekið ákvörðun en eins og dagskrá forseta sýnir er starfið annasamt og því fróðlegt að fá að fylgjast betur með. Guðni hélt úti öflugri Facebook-síðu í kosningabaráttunni sem rúmlega 21 þúsund manns hafa lækað.

Auglýsing

læk

Instagram