Forstjóri SS svarar næringarfræðingi sem hjólaði í pylsuna: „Meira prótín í pylsum en skyri“

Steinþór Skúlason, forstjóri SS, hefur svarað grein Geirs Gunnars Markússonar næringarfræðings sem birtist á vef Náttúrulækningafélags Íslands á dögunum. Greinin bar yfirskriftina Fimm algengar gervimatvörur sem við gefum börnunum okkar og í henni sagði Geir Gunnar meðal annars sorglegt að sjá foreldra fæða börnin sín á matmálstímum á pylsuvögnum bæjarins.

Steinþór segir mjög alvarlegt að næringarfræðingur noti rit NLFI til að dreifa rangfærslum og rógi um þekktar matvörur og að ekki sé hægt að láta slíku ósvarað.

„Með heitinu „gervimatvara“ felst fullyrðing um að SS pylsan sé ekki úr náttúrulegum efnum. Þetta er alrangt,“ segir Steinþór.

Í pylsum er rúmlega 99% innihaldsins náttúruleg efni og meira að segja kollagen görnin sem er utan um pylsurnar er náttúrlegt efni sem unnið er úr nautum.

Steinþór vitnar í Geir sem sagði að pylsan væri „líklega bæjarins versta næring“ og segir varla hægt að hugsa sér meiri róg um eina matvöru. Í grein sinni sagði Geir erfitt að finna eitthvað hollt við pylsur og benti á innihaldslýsingu algengrar pylsu:

grísa- , nautgripa- og kindakjöt (57%), vatn, kartöflusterkja, sojaprótein, salt, glúkósi, krydd, bragðefni, laukduft, bindiefni E450, sýrustillir E330, þráavarnarefni E300,  rotvarnarefni E250, kollagen pylsugörn.

„Eins og sjá má á innihaldslýsingunni er bara 57% kjöt í pylsunni, hin 43% eru hin ýmsu aukaefni!“ sagði Geir Gunnar í grein sinni.

Steinþór gagnrýnir Geir fyrir að kalla íslenskt vatn aukaefni. „Í tilfelli SS er kjöthlutfallið um 65% og það sem Geir kallar aukefni eru íslenskt vatn sem er 25% af þyngdinni sem engum nema Geir dettur í hug að kalla aukefni,“ segir hann.

„Þar við bætist undanrennuduft 3,5% sem er þurrkuð undanrenna og inniheldur fyrst og fremst kolvetni og prótein. Undanrennuduft er ekki aukefni. Þar við bætist kartöflumjöl 2,7% sem er náttúruleg vara unnin úr þurrkuðum kartöflum og er ekki aukefni. Salt er 2,1% sem gerir um 1 gramm í hverri pylsu. Sojaprótein er 1% og er náttúrulegt efni sem unnið er úr sojabaunum. Krydd og kjötkraftur er 0,8%.“

Hann segir þrjú aukefni vera í pylsunni: fosfat 0,54% sem er bindiefni, C vítamín 0,07% til að minnka hættu á gerjun og nítrít 0,03% til að gefa rauðan lit. „Samtals eru aukefni því 0,64% af þyngd en ekki 43% eins og Geir heldur fram,“ segir Steinþór.

Steinþór fullyrðir að næringarlega sé SS pylsan góður kostur miðað við sambærilegan flokk matvæla.

„Hún inniheldur aðeins 17% fitu sem er miklu minna en algengt er með pylsur og miklu minna en t.d. í hamborgurum sem eru yfirleitt með 20-25% fitu,“ segir hann.

„Pylsan inniheldur 13% prótein sem er meira en skyr svo dæmi sé tekið. Fullyrðing Geirs um að SS pylsan sé „líklega bæjarins versta næring“ er augljóslega fráleit.“


Auglýsing

læk

Instagram