Fóru og borðuðu saman á KFC áður en ráðist var á manninn í Mosfellsbæ

Fjórir þeirra sem sæta gæsluvarðhaldi vegna manndrápsins í Mosfellsdal á miðvikudagskvöld fóru saman að borða á KFC áður en þeir lögðu til atlögu. Þrír þeirra vinna hjá fyrirtæki þess fjórða sem bað mennina um að koma með sér upp að Æsustöðum.

Þetta kemur fram á vef RÚV en þar segir einnig að talið sé að maðurinn sem bað mennina um að koma með sér sé annar þeirra sem átti mestan þátt í hrottalegri árás sem leiddi til andláts tæplega fertugs karlmanns. Maðurinn er sá sem sagður er hafa hringt í Neyðarlínuna og óskað eftir sjúkrabíl þegar ljóst var að fórnarlambið hafði misst meðvitund.

Samkvæmt heimildum RÚV gengu tveir karlmannanna harðast fram en hin eru talin eiga minni þátt í árásinni.

Líkt og áður hefur komið fram voru fimm karlmenn og ein kona úrskurðuð í gæsluvarðhald í gær vegna málsins. Öll eru þau í einangrun. Karlmennirnir verða í varðhaldi til 23. júní en konan til 15. júní og má því ætla að lögregla telji þátt hennar í málinu minni en mannanna.

Auglýsing

læk

Instagram