Fylgjendur hrynja af fræga fólkinu á Instagram

Þú þarft ekki að óttast skyndilegt hrun í vinsældum ef fylgjendur þínir á Instagram eru færri í dag en þeir voru í gær. Þetta voru ekki raunverulegir fylgjendur. Eða aðdáendur.

Instagram er nefnilega að hreinsa út gervinotendur sem hafa annað hvort byrjað að fylgja handahófskenndum notendum til að dreifa einhvers konar efni eða sem hafa verið keyptir til að bæta við fylgjendatöluna.

Frægt fólk fór verra út úr jólahreingerningu Instagram en aðrir. Það er einfaldlega vegna þess að fræga fólkið er með fleiri fylgjendur en meðalmaðurinn en hver veit hvaða brögðum kynningardeildirnar hafa beitt til að ná fylgjendatölunum upp í milljónir?

Hægt er að kaupa fylgjendur á helstu samfélagsmiðlum heims í kippum. Hver sem er getur verið með milljón fylgjendur á Instagram eða milljón like á Facebook. Hjá Buzzoid kosta 100 fylgjendur til að mynda 3 dali.

Forritarinn Zach Allia hefur tekið saman grafík sem sýnir þau sem misstu flesta fylgjendurna í hreingerningunni. Áhugavert er að skoða það. Söngvarinn Akon missti til dæmis meira en helming fylgjenda sinna, næstum því tvær og hálfa milljón.

Það er ekkert miðað við notandann chiragchirag78, hver sem það er. Hann eða hún missti næstum því alla fylgjendurna sína, tæpar 3,7 milljónir og átti aðeins átta eftir þegar aðgangnum var hreinlega eytt.

Rihanna missti um eina og hálfa milljón fylgjenda, Selena Gomez rúma milljón og Barack Obama rúmlega 200 þúsund.

Þá missti Nicki Minaj tæpa hálfa milljón, Beyoncé rúmlega 800 þúsund, Kim Kardashian um 1,3 milljónir og aumingja Justin Bieber missti rúmlega þrjár og hálfa milljón fylgjenda.

Sá sem tapaði flestum notendum var Instagram-reikningur Instagram, tæplega 19 milljónir fylgjenda töpuðust þar á bæ í þessari risavöxnu jólahreingerningu.

Auglýsing

læk

Instagram