Gleðirendur málaðar á Skólavörðustíg í tilefni Hinsegin daga

Hinsegin dagar hefjast í Reykjavík á hádegi í dag. Þá mun stjórn Hinsegin daga ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, mála fyrstu gleðirendurnar á Skólavörðustíg.

Skólavörðustígur verður svo málaður öllum litum regnbogans af gestum og gangandi undir leiðsögn starfsfólks Reykjavíkurborgar. Þetta er annað árið í röð sem Skólavörðustígur er prýddur fánanum.

Í fréttatilkynningu frá Samtökunum 78′ segir að það sé ekki tilviljin að Skólavörðustígur hafi orðið fyrir valinu í ár á 40 ára afmæli samtakanna.

„Gatna­mót Skóla­vörðustígs og Bergstaðastræt­is eru tengd­ari bar­áttu hinseg­in fólks en marga grun­ar en nán­ar verður fjallað um það í setn­ing­ar­ræðu for­manns Hinseg­in daga. Áður hafa tröpp­ur Mennta­skól­ans í Reykja­vík og heim­reið Ráðhúss Reykja­vík­ur verið klædd regn­boga í til­efni Hinseg­in daga,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Hinsegin dagar hafa verið haldnir árlega í Reykjavík frá árinu 1999. Í ár standa þeir frá sjöunda til tólfta ágúst. Dagskráin samanstendur af um 30 viðburðum af ýmsum toga og nær hápunkti á laugardaginn ellefta ágúst með gleðigöngu og útihátíð.

Gleðigangan fer að þessu sinni frá Sæbraut við tónlistarhúsið Hörpu að Hljómskálagarðinum þar sem útihátíðin fer fram.

Baráttugleðin er yfirskrift Hinsegin daga 2018. Með því er vísað til þeirrar þrotlausu baráttu sem hinsegin fólk á Íslandi hefur háð á síðustu árum og áratugum.

Und­an­far­in ár hafa um 70.000-100.000 gest­ir tekið þátt í dag­skrá Hinseg­in daga í tengsl­um við gleðigöng­una og bú­ast skipu­leggj­end­ur við mikl­um mann­fjölda í ár enda veður­spá­in góð.

Auglýsing

læk

Instagram