Glowie skrifar undir hjá útgáfurisanum Columbia: „Þetta er draumurinn að rætast“

Tónlistarkonan Sara Pétursdóttir, best þekkt sem Glowie, hefur skrifað undir samning við útgáfurisann Columbia. Umboðsmaður hennar telur að samningurinn sé einn sá stærsti sem Íslendingur hefur gert erlendis. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Í samtali við Morgunblaðið segist Sara hafa verið hálfdofin þegar hún skrifaði undir samninginn í London. „Þetta er bara búið að gerast svo hratt,“ segir hún í Morgunblaðinu.

Þetta er fáránlegt, mér finnst svo stutt síðan þetta var fjarlægt markmið en núna er þetta bara komið og ég að fara að vinna á fullu. Þetta er draumurinn að rætast.

Sindri Ástmarsson, umboðsmaður Söru, segir í Morgunblaðinu að þau hafi getað valið á milli útgáfufyrirtækja. „Það má segja að næstum öll stóru plötufyrirtækin hafi sýnt áhuga,“ segir hann.

Um langtímasamning er að ræða og Sindri telur að um sé að ræða einn stærsta plötusamning sem Íslendingur hefur gert erlendis, sérstaklega þegar litið er til þess hversu miklum fjármunum fyrirtækið hyggst verja í markaðssetningu. „Teymið hennar Söru verður allt í allt um 50 manns og er ég spenntur að fá að hafa yfirumsjón með því.“ segir hann í Morgunblaðinu.

Á meðal þeirra sem Columbia gefur út eru Calvin Harris, Adele, Beyoncé, Daft Punk, Mark Ronson, Bruce Springsteen, Robbie Williams, Foo Fithgters og Bob Dylan.

 

Auglýsing

læk

Instagram