Guðmundur Steingríms hitti Bowie á listasýningu og kom ekki upp orði

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, rakst einu sinni á David Bowie á myndlistarsýningu í London. Hann kom ekki upp orði og svitnaði á efri vörinni. Fólk um allan heim minnist nú David Bowie, sem lést í nótt úr krabbameini, 69 ára gamall.

„Fór einu sinni á myndlistarsýningu í London ásamt minni fyrrverandi,“ rifjar Guðmundur upp á Facebook.

„Það var enginn þar inni nema eitt annað par. Maðurinn var lágvaxinn í þykkri svartri úlpu og konan há og grönn fyrirsætutýpa. „Þetta finnst mér vera flottasta skúlptúrverk í Bretlandi,“ sagði maðurinn við okkur, brosmildur og vinalegur, þar sem við stóðum öll og virtum fyrir okkur verk sem var herbergi hálffullt af spegilsléttri svartri olíu.“

Guðmundur segir að förunautur sinn og maðurinn hafi spjallað saman í dágóða stund um verkið og þýðingu þess, lífið og tilveruna.

Ég hins vegar stóð hjá, blóðrauður í framan og sveittur á efri vörinni. Ég var nefnilega búinn að átta mig á því hver maðurinn var, í gegnum þykka úlpuna.

Hann gat ekki fyrir sitt litla líf stunið upp orði.

„Og ef ég ætti að segja eitthvað þá yrði það að vera eitthvað ógeðslega merkilegt, fannst mér, eitthvað ódauðlegt, eitthvað sem hann myndi alltaf muna eftir, en það kom ekki neitt. Ekki múkk. Það ríkti fullkomið panik í hjartanu. Ég var lostinn eldingu. Þetta var David Bowie.“

Samferðakonu Guðmundar grunaði ekki neitt.

„[Hún] hélt bara að þetta væri vinalegur maður að spjalla, sem hann einmitt var. Enginn hroki, engir stælar, bara vinalegt spjall. Fyrir utan áttaði hún sig, þegar ég sagði henni það. „Vissirðu að þetta var David Bowie,“ sagði ég. „Nei,“ sagði hún. „Guð minn almáttugur.“ Hún hné næstum niður í götuna af geðshræringu. Hvílíkur meistari sem þessi maður var. Hvílík stjarna. Hvílíkur skapari og áhrifavaldur. Hann mun alltaf lifa.“

Auglýsing

læk

Instagram