Hatarar neita að tjá sig um lokaútspilið: „Sé ekki fram á að það sé einhver ein bomba sem að réttlætir þessa ferð“

Nú styttist í úrslitakvöld Eurovision söngvakeppninnar í ár en Hatarar koma fram fyrir Íslands hönd á lokakvöldinu. Margir hafa kallað eftir harðari mótmælum frá íslenska hópnum en Matthías og Klemens ætla ekki að tjá sig sérstaklega um lokaútspilið. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Sjá einnig: Segir fólk sýna Hatara frekju og yfirgang: „Þetta er þeirra prójekt og þeir ráða því hversu langt þeir langt þeir ganga“

Hatarar hafa vakið töluverða athygli fjölmiðla um allan heim en hér heima á Íslandi hafa heyrst raddir sem hvetja þá til þess að gera meira til þess að mótmæla hernámi Ísrael í Palestínu.

„Í sjálfu sér er aldrei nóg að gert, þetta er bara eilífðarverkefni. Við teljum okkur þó hafa gert talsvert. Ferð okkar til Hebron hefur vakið athygli og við höfum sett ákveðin mál á dagskrá í fjölmiðlum,“ segir Matthías í samtali við Björgu Magnúsdóttir.

„En hérna ég sé ekki fram á að það sé einhver ein bomba sem að réttlætir þessa ferð. Þetta er náttúrlega bara fullt af þversögnum en við tjáum okkur ekkert sérstaklega um lokaútspilið,“ bætir hann við.

Viðtalið við Klemens og Matthías mun birtast í heild sinni í þættinum Telegram frá Tel Aviv, í umsjón Gísla Marteins Baldurssonar og Bjargar Magnúsdóttur, í kvöld klukkan 20:15, en brot af því má sjá á vef RÚV með því að smella hér.

Auglýsing

læk

Instagram